Erlent

700 sagðir hafa flúið frá Boko Haram

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Þessir Nígeríumenn dvelja í einum af búðum Boko Haram í Borno-héraði.
Þessir Nígeríumenn dvelja í einum af búðum Boko Haram í Borno-héraði. Vísir/AFP
Nígeríski herinn hefur staðfest að rúmlega sjö hundruð föngum Boko Haram hafi tekist að flýja herbúðir hryðjuverkasamtakanna í norðausturhluta landsins. BBC greinir frá þessu.

Samkvæmt talsmanni hersins flúði fólkið frá eyjum á Tjadvatni skammt undan nígerísku landamærunum og kom heilu og höldnu til borgarinnar Monguno í Nígeríu.

Fréttaritari BBC telur að hópurinn hafi ekki flúið í einu vetfangi heldur í smærri einingum yfir langan tíma.

Nígeríski herinn telur að nýlegar aðgerðir hersins gegn Boko Haram hafi borið árangur og veikt stoðir samtakanna.

Aðgerðirnar, sem kallaðar voru Deep Punch II, áttu að stuðla að því að eyðileggja innviði Boko Haram en talið er að yfir milljón óbreyttra borgara hafist við í búðum samtakanna. Mannréttindabrot eru tíð í slíkum búðum og stór hluti þeirra sem þar dvelja er þvingaður til vinnu við landbúnað og sjómennsku. 

Boko Haram hafa undanfarin átta ár orðið meira en 20 þúsund manns að bana og tekið hundruð þúsundir til fanga. Árið 2014 lögðu samtökin undir sig stór landsvæði í héraðinu Borno og í kjölfarið hertu yfirvöld í Nígeríu aðgerðir sínar til muna. Nígerísk yfirvöld lýstu því yfir árið 2015 að allar bækistöðvar hinna herskáu samtaka hefðu verið eyðilagðar en þeim virðist þó ekki hafa tekist að gera út af við samtökin.


Tengdar fréttir

Chibok-stúlkurnar sameinast fjölskyldum sínum

Gleði ríkti á endurfundum 82 stúlkna sem var rænt frá þorpinu Chibok í Nígeríu fyrir þremur árum með foreldrum þeirra í dag. Enn eru þó fleiri en hundrað stúlkur frá þorpinu í haldi skæruliðasamtakanna Boko Haram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×