Enski boltinn

Allardyce: Eðlilegt að Everton átti ekki skot á markið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Allardyce bráðvantar framherja
Allardyce bráðvantar framherja vísir/getty
Sam Allardyce sagði það vera eðlilegt að Everton hafi ekki átt eitt einasta skot á markið í leik liðsins við Manchester United á heimavelli í dag.

„Við vitum hvar okkar vandamál liggja og félagið vissi það áður en ég kom hingað. Við erum að reyna að leysa það núna í félagsskiptaglugganum með því að fá til okkar framherja. Þangað til þá erum við að mínu mati lið sem getur bara unnið ef við fáum ekki á okkur mark,“ sagði Allardyce eftir leikinn.

United vann nokkuð öruggan 2-0 sigur með mörkum frá Anthony Martial og Jesse Lingard. United átti 21 skot í leiknum, þar af 6 á markrammann, og var 60 prósent með boltann.

„Seinna markið kom upp úr innkasti sem við áttum. Við gáfum þeim tvö mörk. Þeir voru betra liðið, en þú átt ekki að gefa Manchester United svona mörk.“

Allardyce staðfesti að liðið hefði gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ná í tyrkneska framherjan Cenk Tosun sem er á mála hjá Besiktas. Það komi svo í ljós á næsta sólarhring hvort það hafi dugað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×