Enski boltinn

Rauð jól í Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar Klavan skorar sigurmark Liverpool.
Ragnar Klavan skorar sigurmark Liverpool. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson var grátlega nærri því að tryggja Burnley stig gegn Liverpool á Turf Moor með sínu fyrsta marki fyrir félagið í rúmt ár. 

Jóhann Berg jafnaði metin í 1-1 á 87. mínútu þegar hann kastaði sér fram og skallaði boltann fram hjá Simon Mignolet í marki Liverpool. Jóhann Berg hefur ekki verið þekktur fyrir skallamörk í gegnum tíðina en afgreiddi færið sitt gegn Liverpool vel.

Mark íslenska landsliðsmannsins virtist ætla að tryggja Burnley stig en miðverðir Liverpool voru á öðru máli. Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu gestirnir aukaspyrnu á vallarhelmingi heimamanna. Alex Oxlade-Chamberlain lyfti boltanum inn á teiginn, Dejan Lovren skallaði hann á fjærstöngina þar sem hinn miðvörðurinn, Ragnar Klavan, skoraði af stuttu færi. Fyrsta mark hans fyrir Liverpool og fyrsta markið sem Eistlendingur skorar í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool-menn geta verið sáttir með uppskeru jólatarnarinnar. Rauði herinn hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og skorað 16 mörk í þeim. Mohamed Salah og Philippe Coutinho fóru mikinn í jólamánuðinum en þeir voru ekki með gegn Burnley í gær. Leikurinn á Turf Moor var sá sísti hjá Liverpool í jólatörninni en sigurinn var þeim mun mikilvægari. 

„Ég er mjög ánægður. Þetta var ekki frábær fótbolti en viðhorfið var frábært. Ég vildi sjá það frá mínum mönnum,“ sagði kátur Jürgen Klopp eftir leikinn í gær.

Eftir 4-1 skellinn gegn Tottenham 22. október hefur Liverpool leikið 16 leiki í röð án þess að tapa. Ellefu þessara leikja hafa unnist og fimm endað með jafntefli. Sóknarleikurinn er lítið vandamál hjá Liverpool. Liðið skoraði sjö mörk gegn Spartak Moskvu í Meistaradeildinni, fimm gegn Swansea City og Brighton, fjögur gegn Bournemouth og West Ham. Salah hefur farið hamförum og Brassarnir Coutinho og Roberto Firmino verið duglegir að skora og leggja upp.

Varnarleikurinn hefur líka lagast, ef frá er talinn leikurinn gegn Arsenal þar sem Liverpool fékk á sig þrjú mörk á fimm mínútum. Í síðustu 13 deildarleikjum hefur Liverpool aðeins fengið á sig níu mörk og haldið sex sinnum hreinu.

Stuðningsmenn Liverpool vonast líka til þess að vörnin verði enn sterkari þegar Virgil van Dijk, dýrasti varnarmaður allra tíma, kemur inn í liðið. Hollendingurinn er orðinn löglegur með Rauða hernum. 

Liverpool er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 44 stig, sex stigum á undan Arsenal sem er í 5. sætinu. Strákarnir hans Klopps voru einnig í 4. sætinu eftir 22 umferðir á síðasta tímabili en með stigi meira.

Janúar var hræðilegur hjá Liverpool í fyrra; liðið fékk aðeins þrjú stig í fjórum deildarleikjum, var slegið út úr ensku bikarkeppninni af B-deildarliði Wolves og tapaði báðum leikjunum gegn Southampton í undanúrslitum deildabikarsins.

Fjarvera Sadios Mané setti stórt strik í reikning Liverpool í janúar í fyrra. Nú er hins vegar engin Afríkukeppni að trufla Liverpool og þá virðist leikmannahópurinn vera breiðari og sterkari en í fyrra.

Liverpool mætir Everton í 3. umferð ensku bikarkeppninnar um næstu helgi. Helgina þar á eftir tekur Rauði herinn svo á móti toppliði Manchester City. Tveir risaleikir fyrir Liverpool en miðað við frammistöðuna að undanförnu hefur liðið lítið að óttast.

Úr leik Crystal Palace og Manchester City.vísir/getty
Stóru málin eftir helgina í enska boltanum

Stærstu úrslitin

Crystal Palace stöðvaði 18 leikja sigurgöngu Manchester City er liðin gerðu markalaust jafntefli á gamlársdag. Palace fékk gullið tækifæri til að vinna leikinn í uppbótartíma en Ederson varði vítaspyrnu Luka Milivojevic. Pal­ace hefur aðeins tapað einum af síðustu 10 deildarleikjum sínum.

Hvað kom á óvart?

Swansea vann afar mikilvægan sigur á Watford, 1-2, í fyrsta leiknum undir stjórn Carlos Carvalhal. Útlitið var ekki gott fyrir Svanina sem voru marki undir þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. En mörk frá Jordan Ayew og Luciano Narsingh tryggðu Swansea stigin þrjú.

Mestu vonbrigðin

Mark Hughes hvíldi marga lykilmenn gegn Chelsea og Stoke fékk á baukinn, 5-0. Hann sagði að þessi ákvörðun myndi borga sig ef liðið myndi vinna Newcastle. Það fór ekki svo. Newcastle vann 0-1 sigur. Stoke hefur gengið illa á tímabilinu og Hughes situr í sjóðheitu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×