Enski boltinn

Upphitun: Byrjar City nýja sigurgöngu?

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóladagskráin heldur áfram í enska boltanum, en fjórir leikir eru á dagskrá úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Það er fallslagur á St. Mary's vellinum í Southampton þar sem heimamenn taka á móti Crystal Palace. Palace varð fyrsta liðið sem kom í veg fyrir að Manchester City skoraði mark í deildarleik á tímabilinu á gamlársdag og mæta lærisveinar Roy Hodgson því fullir sjálfstrausts á suðurströndina.

Botnlið Swansea fær Tottenham í heimsókn, en Harry Kane og félagar hafa fengið lengri hvíld en aðrir í deildinni, þeir spiluðu síðast annan í jólum. Swansea vann hins vegar sigur á Watford á laugardaginn.

West Ham, sem hefur heldur ekki spilað síðan annan í jólum, tekur á móti lánslausu liði WBA. Lærisveinar Alan Pardew hafa ekki unnið leik síðan í annari umferð deildarinnar um miðjan ágúst.

Topplið Manchester City getur svo hefnt fyrir ófarirnar á gamlársdag og hafið nýja sigurgöngu þegar liðið fær Watford í heimsókn á Etihad völlin. Watford byrjaði tímabilið vel, dalaði svo aðeins og situr nú í 10. sætinu með 25 stig.

Leikir dagsins:

19:45 Southampton - Crystal Palace

19:45 Swansea - Tottenham, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport

19:45 West Ham - West Bromwich Albion

20:00 Manchester City - Watford




Fleiri fréttir

Sjá meira


×