Erlent

„Tíminn er útrunninn“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Reese Witherspoon, Eva Longoria og Shonda Rhimes eru á meðal þeirra kvenna sem standa að Time's Up-átakinu.
Reese Witherspoon, Eva Longoria og Shonda Rhimes eru á meðal þeirra kvenna sem standa að Time's Up-átakinu. Vísir/Getty/AFP

300 konur í kvikmynda- og skemmtanageiranum í Hollywood hafa hrint af stað fjölþættu átaki í kjölfar #MeToo-byltingarinnar. Átakinu, sem ber heitið Time‘s Up, eða Tíminn er útrunninn, er ætlað að leiðrétta valdaójafnvægið sem ríkt hefur bæði í Hollywood og á almennum vinnumarkaði í Bandaríkjunum.



Hundruð kvenna skrifuðu undir opið bréf sem birtist í bandaríska dagblaðinu New York Times í dag. Í bréfinu eru helstu markmið og verkefni Time‘s Up-átaksins útlistuð.

„Uppræta verður erfiðleika sem konur glíma við í risi sínu upp metorðastigann og við það að láta rödd sína heyrast og hljóta viðurkenningu á vinnustöðum, þar sem karlmenn ráða lögum og lofum,“ segir í bréfinu. „Tíminn er útrunninn.“



Styrktarsjóður, löggjöf og rauði dregillinn

Leikkonur, umboðsmenn, leikstjórar, framleiðendur og handritshöfundar eru meðal þeirra sem standa að átakinu en það skiptist í fjóra meginhluta:

  • Styrktarsjóð, sem stendur nú í 13 milljónum Bandaríkjadala eða rúmum 1,3 milljarði íslenskra króna. Sjóðnum er ætlað að standa undir lögfræðikostnaði  kvenna, sem verða fyrir áreitni en hafa lítið á milli handanna. Þá er einnig gert ráð fyrir að konur geti notfært sér sjóðinn til uppihalds.
  • Að samþykkt verði löggjöf sem kveði á um refsingu af einhverju tagi fyrir þau fyrirtæki sem láta áreitni viðgangast
  • Að kynjajafnrétti verði haldið á lofti í allri starfsemi  kvikmyndavera og umboðsskrifstofa
  • Að þær konur sem hyggjast ganga rauða dregilinn á Golden Globe-verðlaunahátíðinni, sem haldin verður þann 8. janúar næstkomandi, klæðist svörtu til að sýna samstöðu og mótmæla kynferðislegri áreitni í skemmtanabransanum

Undir bréfið skrifa m.a. leikkonurnar Ashley Judd, Eva Longoria, America Ferrera, Natalie Portman, Rashida Jones, Emma Stone, Kerry Washington og Reese Witherspoon. Þá hefur handritshöfundurinn og framleiðandinn Shonda Rhimes, sem framleitt hefur þáttaraðir á borð við Grey‘s Anatomy og Scandal, ljáð átakinu krafta sína.

Meryl Streep og Steven Spielberg styrkja sjóðinn

Í umfjöllun New York Times kemur einnig fram að enginn einn leiðtogi fari fyrir átakinu. Öll vinna fer fram í minni hópum víðsvegar um Bandaríkin og skipta hóparnir með sér verkefnum.



Einn hópurinn einblínir til að mynda á málefni hinsegin- og transfólks og þá hefur annar hópur yfirumsjón með áðurnefndum styrktarsjóði, sem standa á undir lögfræðikostnaði kvenna er verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Á meðal þeirra sem hafa látið fé af hendi rakna til sjóðsins eru Reese Witherspoon, Meryl Streep og Steven Spielberg.



Fyrstu drög að átakinu voru teiknuð upp í október þegar konur tóku að stíga fram og segja frá kynferðislegri áreitni valdamanna í Hollywood. Allra fyrst litu ásakanir á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein dagsins ljós. Síðan þá hafa menn á borð við leikarana Kevin Space og Dustin Hoffman, repúblikanann Roy Moore og leikstjórann Bryan Singer verið sakaðir um áreitni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×