Innlent

Réðst á eldri konu og nágranna hennar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Konan og nágranni hennar voru flutt á Landspítalann vegna áverka sem ungi maðurinn veitti þeim.
Konan og nágranni hennar voru flutt á Landspítalann vegna áverka sem ungi maðurinn veitti þeim. Vísir/Vilhelm
Ungur maður, sem lögregla segir hafa verið í mjög annarlegu ástandi, réðst í gærkvöldi á eldri konu á heimli hennar við Sléttuveg. Er hann sagður hafa veitt henni einhverja áverka en hversu alvarlega er þó ekki vitað á þessari stundu.

Maður úr næstu íbúð á að hafa hlaupið til og reynt að aðstoða konuna meðan barsmíðarnar stóðu yfir en ungi maðurinn brugðist ókvæða við og slegið nágrannann í andlitið. Hinn ungi var að lokum yfirbugaður af gestum sem staddir voru í húsinu og var honum haldið þangað til lögregla mætti á vettvang. Bæði konan og nágranninn voru flutt á slysadeild til aðhlynningar en ungi maðurinn hefur mátt dúsa í fangaklefa.

Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Tilkynnt var um hið minnsta sex innbrot eða þjófnaði og þá voru nokkrir teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá hefur lögregla og slökkvilið ítrekað verið kölluð til víða um höfuðborgarsvæðið vegna elds eða bruna í blaðagámum og ruslatunnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×