Enski boltinn

Mourinho: Eina sem Scholes gerir er að gagnrýna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Scholes hefur verið að láta sína menn heyra það.
Scholes hefur verið að láta sína menn heyra það. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, var ekki hrifinn af því að Paul Scholes, fyrrum miðjumaður United, væri að gagnrýna miðjumann sinn, Paul Pogba.

Scholes sagði eftir markalausa jafnteflið gegn Southampton að Pogba liti ekki út fyrir að vera leikmaður sem ynni leiki fyrir sitt félag og fyrir slíka menn væri verið að greiða 90 milljónir punda fyrir.

„Það eina sem Scholes gerir er að gagnrýna. Scholes verður í sögubókunum sem stórkostlegur knattspyrnumaður en ekki sem álitsgjafi,“ sagði Mourinho augljóslega pirraður á ummælum Scholes.

„Það geta ekki allir verið frábærir eins og Scholes var. Stundum spilar Pogba vel og stundum ekki. Hann er samt alltaf að reyna sitt besta. Það er ekki Pogba að kenna að hann sé ríkari en Scholes. Þannig er bara fótboltinn í dag.“

Scholes, sem vann deildina ellefu sinnum með United, sagði meira um Pogba sem fór í taugarnar á Mourinho.

„Hann er bara á röltinu í leikjum. Hann lítur ekki út fyrir að vera í formi. Ég velti fyrir mér hvort hann sé að æfa eins og maður. Það ætti enginn að eiga möguleika gegn honum en hann er beðinn um að spila rullu sem honum líður ekki vel í. Stjórinn þarf að taka ábyrgð á því,“ sagði Scholes og Mourinho svaraði.

„Ef Paul ákveður einhvern tímann að verða knattspyrnustjóri þá óska ég þess að hann nái 25 prósent af mínum árangri. Það er í kringum sex titlar. Ef hann nær því þá verður hann ánægður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×