Erlent

Kornabarn fannst á bílastæði í Kaupmannahöfn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Barnið var umsvifalaust flutt á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.
Barnið var umsvifalaust flutt á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.
Borgarstarfsmaður í Kaupmannahöfn fann í morgun grátandi ungabarn sem virðist hafa verið skilið eftir á bílastæði. Hann hafði umsvifalaust samband við lögregluna.

Haft er eftir rannsóknarlögreglumanni á vef danska ríkisútvarpsins að lögreglan hafi verið fljót á vettvang. „Við komum á svæðið og sáum að þetta var lítil stelpa. Hún var lögð inn á sjúkrahús um hæl, þar sem hún dvelur nú.“

Það eina sem vitað er að svo stöddu er að stelpan er nýfædd. Því liggur ekki fyrir hvað hún hefur hírst lengi á bílastæðinu á Hammelstrupsvegi en hún fannst þar klukkan 07:40 að íslenskum tíma. Lögreglan óskar eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á foreldrum hennar.

Frá árinu 2004 hafa 10 dönsk ungabörn verið skilin eftir á víðavangi af foreldrum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×