Erlent

Kjarnorkustríð við Norður-Kóreu „aldrei verið líklegra“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingum í Suður-Kóreu.
Frá æfingum í Suður-Kóreu. Vísir/AFP

Aðmírállinn Mike Mullen, fyrrverandi formaður bandaríska herráðsins, segir kjarnorkustríð við Norður-Kóreu aldrei hafa verið líklegra. Þá sjái hann ekki leiðir til að leysa Kóreudeiluna með viðræðum, á þessum tímapunkti. Mullen var formaður herráðsins undir bæði George W. Bush og Barack Obama og á þeim tíma var hann æðsti herforingi Bandaríkjanna.

Í nýlegu viðtali sagði Mullen að ummæli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, gæfu til kynna að forsetinn aðhyllist árásargjarnari nálgun varðandi Norður-Kóreu. Hann sagði James Mattis, varnarmálaráðherra, H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafa, og John Kelly, starfsmannastjóra Hvíta hússins, hafa tekist að koma í veg fyrir að Trump stæði við hótanir sínar um „eld og heift“.

Sjá einnig: Norður-Kórea dæmir Trump til dauða fyrir móðganir sínar

„Ég hef áhyggjur af því hve lengi það mun vara,“ sagði Mullen og segist telja að á einhverjum tímapunkti gæti Trump hætt að hlusta á ráðgjafa sína og fylgja eigin hug.

Þingmaðurinn Lindsey Graham sló á svipaða strengi á dögunum og sagðist telja um 30 prósent líkur á því að Trump myndi fyrirskipa árásir á Norður-Kóreu til að stöðva kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir þeirra svo þeir gætu ekki þróað áreiðanlegar langdrægar eldflaugar og kjarnorkuvopn sem hægt væri að skjóta að Bandaríkjunum.

Hann sagði einnig að ef Norður-Kóreumenn myndu framkvæma aðra kjarnorkuvopnatilraun, þá sjöundu, myndu líkurnar fara upp í 70 prósent.

„Hann tók þá ákvörðun snemma að koma í veg fyrir að Norður-Kóreumenn gætu þróað kjarnorkuflaugar sem hægt væri að skjóta að Bandaríkjunum,“ sagði Graham.

Aðspurður hvort að árásir kæmu til greina sagði Graham að þvinganir og refsiaðgerðir myndu aldrei virka án hernaðarógnar.

„Hvernig færðu mann sem er tilbúinn til að myrða fjölskyldumeðlimi sína og pynta eigin þjóð til að halda völdum, til þess að breyta hegðun sinni. Eina leiðin er að hann trúi því að Donald Trump myndi beita afli til að gereyða ríkisstjórn hans.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.