Fótbolti

Albert: Ætla mér byrjunarliðssæti á næsta tímabili

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hinn tvítugi Albert Guðmundsson er einn efnilegasti fótboltamaður Íslands, en hann spilar með hollenska stórveldinu PSV.

Albert fór aðeins 16 ára til Heerenveen í Hollandi þar sem hann steig sín fyrstu skref á erlendri grundu. Árið 2015 færði hann sig svo um set til PSV

„Tíminn hjá Heerenveen var virkilega mikilvægur fyrir mig. Þeir komu frábærlega fram við mig og það var ótrúlega gaman þar og gekk mjög vel og ég uppskar samning við PSV,“ sagði Albert í viðtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Albert hefur farið á kostum með varaliði PSV, Jong PSV, í vetur en hefur þurft að hanga mikið á bekknum með aðalliðinu.

„Það er erfitt að brjóta sig inn í liðið þegar liðið vinnur alla leiki. Samkeppnin er hörð, en það er ekkert sem er að fara að brjóta mig niður og ég held áfram að berjast fyrir sæti mínu í liðinu.“

„Ég er meira að horfa á næsta tímabil meira sem byrjunarliðsmaður og ég geri þær kröfur á sjálfan mig að verða búinn að vinna mig inn í liðið þá.“

Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson valdi Albert í hópinn sem heldur til Indónesíu nú í janúar, en hann fékk líka tækifæri í landsliðshópnum á sama tíma að ári liðnu.

„Langtímamarkmiðið er alltaf að vera byrjunarliðsmaður í íslenska landsliðinu, en ég þarf að sanna mig og vinna mér inn það traust frá þjálfaranum og öðrum leikmönnum,“ sagði Albert Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×