Fótbolti

Nóg af miðum á leikina við Nígeríu og Króatíu

Baldur Guðmundsson skrifar
Íslendingar fagna HM-sætinu á Laugardalsvelli.
Íslendingar fagna HM-sætinu á Laugardalsvelli. vísir/anton brink

„Miðað við þær umsóknir sem eru komnar er líklegt að kvótinn bara dugi okkur,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, um eftirspurn hjá Íslendingum eftir miðum á leiki Íslands á HM í knattspyrnu.

Stuðningsmenn Íslands fá átta prósent af miðum sem fara í almenna sölu úthlutuð. Skotið hefur verið á að það geti þýtt að miðar eyrnamerktir Íslendingum verði um 3.200 talsins á hvern leik Íslands.

Klara hefur greint frá því að Knattspyrnusambandið hafi farið þess á leit við FIFA að fá fleiri miða fyrir Íslendinga. Hún viðurkennir að vera hóflega bjartsýn. „Þeir lofuðu að skoða málið,“ segir hún um fund sem hún átti með fulltrúum FIFA um annað málefni í desember.

Ósk KSÍ um fleiri miða á EM í Frakklandi skilaði á endanum árangri en Klara segir málið hafa tekið margar u-beygjur áður en fleiri miðar fengust.

Klara segir aðspurð að ekki sé útlit fyrir að miðafjöldi verði vandamál í öðrum og þriðja leik Íslands á mótinu. „Miðað við þær upplýsingar sem koma frá FIFA þá er þetta vandamál í fyrsta leiknum. Hinir tveir leikirnir í riðlinum eru ekki vandamál,“ segir hún en Ísland leikur fyrst við Argentínu, þá Nígeríu og loks Króatíu. Flestir hafi sótt um miða á fyrsta leikinn, svo annan en fæstir á þriðja leikinn.

Þetta bendir til þess að eftirspurnin sé minni en sem nemur þeim 3.200 miðum sem áætlað hefur verið að Íslendingum séu eyrnamerktir. Klara bendir í því samhengi á að nokkuð virðist um að Íslendingar hafi fengið miða á fyrri stigum miðasölunnar. Hægt er að sækja um miða til 31. janúar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.