Erlent

Segir ásakanir æðsta klerksins algjört rugl

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nikki Haley er sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Nikki Haley er sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. vísir/getty
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir ásakanir Ayatollah Ali Khamenei, æðsta klerks Írans, um að óvinir ríkisins standi á bak við mikil mótmæli í landinu algjört rugl. Haley segir að mótmælin séu sjálfsprottin en Bandaríkin hyggjast óska eftir neyðarfundi í öryggisráði SÞ vegna mótmælanna að því er fram kemur á vef BBC.

Æðsti klerkurinn setti ásakanirnar fram í dag þegar hann tjáði sig í fyrsta skipti um mótmælin en þau hófust síðastliðinn fimmtudag. Alls hafa 22 látist í mótmælunum sem byrjuðu í borginni Mashad. Hátt verðlag og spilling var kveikjan að mótmælunum þar en þau hafa síðan teygt anga sína víðar um landið og mótmælir nú fólk stjórnvöldum og stefnu þeirra.

Stjórnmálaskýrendur telja að óvinir ríkisins sem Khamenei vísar til séu Ísrael, Bandaríkin og nágrannaríkið Sádi-Arabía. Haley segir að ásakanir æðsta klerksins séu fáránlegar og að Íranir séu að berjast fyrir frelsi með mótmælunum.

„Allir þeir sem unna frelsinu verða að standa með þeim,“ sagði Haley en ekki er víst að það fáist samþykkt að öryggisráðið fundi um mótmælin þar sem það fæst við mál sem snúa að alþjóðlegri ógn við frið og öryggi í heiminum. Óljóst er hvort öll aðildarríki ráðsins líti á mótmælin sem slíka ógn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×