Erlent

Norður-Kórea tekur aftur upp tólið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hermaður Suður-Kóreu sést hér ræða við kollega sinn handan landamæranna árið 2005.
Hermaður Suður-Kóreu sést hér ræða við kollega sinn handan landamæranna árið 2005. Vísir/afp

Beinu símasambandi hefur verði komið á milli Norður- og Suður-Kóreu til að ræða mögulega þátttöku þeirra fyrrnefndu á komandi Vetrarólympíuleikum.

Vísir greindi frá því í gær að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafi mikinn áhuga á að senda fulltrúa ríkis síns á leikana sem fram fara í Pyeongchang í Suður-Kóreu í febrúar. Vill hann því að setjast niður með erindrekum Suður-Kóreu hið snarasta en stjórnvöld í Seúl fagna hinum væntanlegu samningaviðræðum og líta á þær sem tækifæri til að ræða fleiri þætti í samskiptum ríkjanna - ekki síst kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.

Suður-Kóreska fréttaveitan Yonhap greinir svo frá því að klukkan 5:30 í morgun að íslenskum tíma hafi verið opnað á beina símalínu milli ríkjanna. Þau hafa ekki rætt formlega sín á milli síðan í desember árið 2015.

Sjá einnig: Vetrarólympíuleikarnir gætu þítt frostið

Í sjónvarpsútsendingu í nótt sagði norður-kóreskur embættismaður að tilgangur samtalsins væri sem fyrr segir að ræða þátttöku Norður-Kóreu á Vetrarólmympíuleikunum. „Við munum ræða ýmis tæknilega atriði er lúta að flutningi fulltrúa okkar á leikana,“ hefur Yonhap eftir embættismanninum.

Norður-Kóreumenn riftu símasamskiptum milli ríkjanna árið 2016 og hafa þeir ekki tekið upp tólið síðan að sögn stjórnvalda í Seúl. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að embættismenn í Pjongjang hafi reynt að hringja suður allt frá því að Kim Jong-un flutti árlegt áramótaávarp sitt á dögunum. Það er af mörgum sagt hafa verið hófstilltara en fyrri ávörp hans.

Forseti Suður-Kóreu kveðst spenntur fyrir því að ná aftur beinu símasambandi við nágrannanna í norðri. Samskipti ríkjanna hafi verið stirð undanfarið, ekki síst vegna stórstígra framfara í kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.