Arsenal og Chelsea buðu upp á mikla skemmtun í 2-2 jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hector Bellerin fagnar jöfnunarmarkim sínu.
Hector Bellerin fagnar jöfnunarmarkim sínu. Vísir/Getty

Arsenal og Chelsea gerðu 2-2 jafntefli í bráðfjörugum Lundúnaslag á Emirates-leikvanginum í kvöld en Hector Bellerin tryggði Arsenal jafntefli í lokin.

Bæði liðin komust yfir í leiknum og bæði lið fengu fjölda færi til að skora sjö til átta fleiri mörk í þessum stórskemmtilega fótboltaleik.

Chelsea tókst því ekki að taka annað sætið af Manchester United og Arsenal náði heldur ekki að taka fimmta sætið af Tottenham. Chelsea er nú einu stigi á eftir United og sextán stigum á eftir toppliði Manchester City.

Öll fjögur mörkin komu í seinni hálfleiknum en það vantaði ekki færin í þeim síðari. Leikurinn var frábær skemmtun og eiginlega algjör synd að ekki væri hægt að fá meira en þessar 90 mínútur af þessari fótboltaveislu.

Alvaro Morata fékk algjört dauðafæri á fjórtándu mínútu þegar hann slapp einn í geng en skotið hans fór langt framhjá markinu.

Aðeins þremur mínútum síðar komu Thibaut Courtois í marki Chelsea og hrein óheppni í veg fyrir að Alexis Sanchez kæmi Arsenal í 1-0. Thibaut Courtois varði þá skot Alexis Sanchez í báðar stangirnar en ekki fór boltinn inn.

Thibaut Courtois varði einnig mjög vel frá Alexandre Lacazette og Meusut Özil náði mjög góðu skoti sem fór rétt framhjá.

Chelsea fékk líka fín færi í fyrri hálfleiknum það besta þegar Eden Hazard átti frábær hlaup og skildi síðan boltann eftir fyrir Cesc Fabregas sem hitti síðan ekki markið.

Petr Cech varði tvisvar mjög vel frá Chelsea-mönnum í upphafi seinni hálfleiks, fyrst frá Eden Hazard og svo strax aftur þegar Marcos Alonso skallaði frákastið aftur að markinu.

Alexandre Lacazette fékk frábært færi á 52. mínútu en enn á ný varði Thibaut Courtois frá Arsenal-mönnum úr dauðafæri.

Liðin skoruðu síðan bæði með nokkurra mínútna millibili. Þau höfðu bæði átti fullt af færum og áttu bæði skilið að skora.

Jack Wilshere kom Arsenal í 1-0 með óverjandi þrumuskoti úr vítateignum á 63. mínútu eftir að boltinn datt fyrir hann í teignum eftir að sendingu Rob Holding hafði viðkomu í varnarmanni.

Chelsea jafnaði hinsvegar aðeins þremur mínútum síðar. Eden Hazard fékk þá vítaspyrnu eftir að Hector Bellerin sparkaði hann niður og Belginn skoraði sjálfur úr vítaspyrnunni.

Endurkoma Chelsea var hinsvegar í spilunum og Marcos Alonso kom þeim yfir sex mínútum fyrir leikslok eftir að Davide Zappacosta hafði farið illa með Ainsley Maitland-Niles.

Arsenal menn voru hinsvegar ekki hættir og Hector Bellerin bætti fyrir vítaspyrnuna með því að jafna metin með þrumuskoti í uppbótartíma.

Skömmu síðar fékk Alvaro Morata síðan enn eitt dauðafærið og Davide Zappacosta þrumaði frákastinu í þverslána. Það var hreinlega ótrúlegt að Morata skildi ekki skora í þessum leik því nóg fékk hann af færum.

Fleiri urðu mörkin því ekki, liðin skiptust á jafnan hlut og tókst hvorugu að hækka sig um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.