Viðskipti innlent

Atvinnuleysi 1,7 prósent

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Atvinnuleysi mældist 1,7 prósent í nóvember síðastliðnum.
Atvinnuleysi mældist 1,7 prósent í nóvember síðastliðnum. Vísir/Vilhelm
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 198.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í nóvember 2017, sem jafngildir 80,5 prósent atvinnuþátttöku. Af þeim voru 194.700 starfandi og 3.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79,2 prósent og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,7 prósent. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni.

Samanburður mælinga fyrir nóvember 2016 og 2017 sýna að vinnuaflið hefur dregist saman um 1.000 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkað um 3,5 prósentustig. Fjöldi starfandi stendur nánast í stað en hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði þó um 2,9 prósentustig. Atvinnulausir eru um 1.200 færri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra lækkaði um 0,6 prósentustig. Alls voru 47.900 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 10.100 manns frá því í nóvember 2016 en þá voru þeir 37.800.

Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum var fjöldi fólks á vinnumarkaði 198.800 í nóvember 2017 sem jafngildir 81 prósent atvinnuþátttöku, sem er lækkun um tvö prósentustig frá október 2017.

Áætlaður fjöldi atvinnulausra í október var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 4.900 og fækkaði um 2.300 manns frá áætluðum fjölda í október. Hlutfall atvinnulausra lækkaði því á milli október og nóvember 2017 um eitt prósentustig, úr 3,5 prósent í 2,5.

Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í nóvember 2017 var 79 prósent, sem er einu stigi lægra en það var í október. Áætlaður fjöldi utan vinnumarkaðar hækkaði úr 41.800 í 46.600 á milli mánaða, eða um 4.800 manns. Þegar horft er til síðustu sex mánaða sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuþátttaka hefur dregist saman um 0,4 prósentustig og hlutfall starfandi lækkað um 0,5 prósentustig. Atvinnuleysi stendur hins vegar í stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×