Erlent

Dæmdur í sautján ára fangelsi fyrir morðið á Bakken

Atli Ísleifsson skrifar
Lík hins 49 ára Nils Olav Bakken fannst í Søndre Land þann 3. september 2016.
Lík hins 49 ára Nils Olav Bakken fannst í Søndre Land þann 3. september 2016. Norska lögreglan
Dómstóll í Noregi dæmdi í morgun 36 ára karlmann í sautján ára fangelsi fyrir morðið á hinum 49 ára Nils Olav Bakken í september 2016. Bakken fannst látinn og lík hans illa brennt á skógarvegi í sveitarfélaginu Søndre Land, um hundrað kílómetrum norður af Ósló.

Dómstóllinn (Eidsivating lagmannsrett) mildaði þar með dóm þingréttarins yfir Odd Raymond Olsen úr tuttugu árum í sautján. Verdens Gang greinir frá þessu.

Málið vakti mikla athygli í Noregi á sínum tíma, en lögregla handtók þrjá vegna málsins tveimur mánuðum eftir að lík Bakken fannst.

Mæðgin, 44 ára kona og tvítugur sonur hennar, voru einnig ákærð í málinu en voru bæði sýknuð af ákæru um morð. Þau voru hins vegar fundin sek af ákæru um líkamsárás og hlaut móðirin tveggja ára dóm en sonurinn fimm ára.

Var á lífi þegar kveikt var í honum

Í dómsgögnum kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að Bakken hafi verið ráðinn bani á sama stað og lík hans fannst. Þá hafi hann verið á lífi þegar kveikt var í honum og lést hann af völdum blæðingar og brunasára.

Í dómsorðum kemur fram að morðið hafi verið skipulagt og að um aftöku á varnarlausri manneskju hafi verið að ræða.

Konan viðurkenndi að þrímenningarnir hafa ætlað sér að ganga á Bakken vegna ásakana um að hann hafi brotið á manneskju sem tengdist þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×