Handbolti

HSÍ vildi ekki framlengja samning Geirs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Handknattleikssamband Íslands vill ekki framlengja samning sinn við Geir Sveinsson, landsliðsþjálfara A-landsliðs karla, fyrr en eftir að þátttöku Íslands á Evrópumótinu í Króatíu er lokið.

Þetta staðfesti Geir í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Minn samningur er að renna út eftir þetta mót. Við höfum verið að ræða saman, ég ræddi við þá síðasta sumar en ég var dreginn ansi lengi á svari eða á fimmta mánuð. Ég fékk þau skilaboð núna fyrir mót að ekki stæði til að framlengja við mig að svo stöddu,“ sagði Geir.

Geir hefur þjálfað íslenska landsliðið síðan í apríl 2016. Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði við mbl.is að þessi staða væri í samræmi við vinnulag HSÍ.

„Samningar renna út yfirleitt eftir mót þegar staðan er tekin og menn meta árangurinn. Það var engin ástæða til þess að breyta frá því verklagi nú, en það hefur ekkert með hann að gera,“ sagði Guðmundur.

Hann vill þó ekki meina að neitun HSÍ á framlengingu hafi neitt með frammistöðu Geirs að gera, eða að viðræður séu í gangi um nýjan landsliðsþjálfara.

„Við metum það bara svo að ekki hafi verið sérstök ástæða til þess að breyta samningnum, en það er allt opið í framhaldinu. Ég ítreka að það hefur ekkert með hann að gera og engin afstaða gagnvart honum að við höfum ekki viljað breyta stöðunni. Liðið er á réttri vegferð og við vonum að það haldi áfram,“ sagði Gumundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×