Erlent

Mótmæla heiftarlegu ofbeldi gegn lögregluþjónum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar krefjast þess að stjórnvöld landsins styðji við bakið á þeim.
Lögregluþjónar krefjast þess að stjórnvöld landsins styðji við bakið á þeim. Vísir/AFP

Lögregluþjónar í Frakklandi gengu í dag um götur borga landsins til að mótmæla heiftarlegu ofbeldi gagnvart lögregluþjónum á gamlárskvöld. Myndbönd af annarri árásinni þar sem hópur manna réðst á lögreglukonu hefur vakið óhug í Frakklandi. Mennirnir börðu og spörkuðu í konuna þar sem hún lá í götunni og reyndi að verja sig.

Lögregluþjónar krefjast þess að stjórnvöld landsins styðji við bakið á þeim.

Eftir árásirnar sagði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, að árásarmennirnir sem réðust á lögreglukonuna væru heiglar og hét hann því að þeir yrðu gómaðir og þeim yrði refsað.

Samkvæmt frétt TheLocal.fr var lögregla kölluð til eftir að vísa þurfti hundruð manna frá samkvæmi í úthverfi Parísar, Champigny-sur-Marne. Tveir lögregluþjónar urðu viðskila við hina lögregluþjónana og ráðist var á þau. Meiðsli konunnar liggja ekki fyrir en maðurinn nefbrotnaði.

Enginn mun hafa verið handtekinn vegna árásanna.

Myndband af árásinni á lögreglukonuna hefur verið birt á samfélagsmiðlum.

Þá bárust einnig fregnir af því að ráðist hefði verið á annan lögregluþjón í úthverfinu Aulnay-sous-Bois, þegar tveir lögregluþjónar stöðvuðu unga menn sem ætluðu að stela vespu.

Einn lögregluþjónn var kýldur margsinnis og hinn skaut úr byssu sinni upp í loftið til að hræða árásarmennina.

Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, sagði árásirnar vera óásættanlegar. Nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða í hverfum sem hafi á sér orð fyrir fátækt og ofbeldi.

Lögreglan í Frakklandi hefur lengi átt í stormasömu sambandi við ungt fólk í úthverfum Parísar þar sem mikil fátækt ríki og margir íbúa eru innflytjendur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.