Erlent

Sluppu út úr fangelsi vopnaðir slípirokk og hamri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Strokutilraun fanganna náðist á myndband.
Strokutilraun fanganna náðist á myndband. Vísir/EPA
Níu fangar hafa sloppið út úr Plötzensee-fangelsinu í Berlín á undanförnum dögum. Sex fangar ganga enn lausir en fjórir þeirra sluppu úr fangelsinu með því að brjótast út í gegnum loftræstingakerfi fangelsins. BBC greinir frá.

Fjórmenningarnir sluppu út síðastliðinn föstudag. Brutu þeir sér leið inn í loftræstikerfið vopnaðir slípirokk og hamri úr smíðastofu fangelsins. Þaðað fundu þeir sér leið út úr fangelsinu áður en þeir skriðu undir öryggisgirðingu. Tveggja þeirra er enn leitað

Athæfi fanganna náðist á öryggismyndavélar en samt sem áður leið 41 mínúta þangað til upp komst um strokufangana. Á nýársdag sluppu tveir fangar út úr fangelsinu út um glugga á fangaklefa, einn þeirra sneri hins vegar aftur en hins er enn leitað.

Þá er ekki vitað hvort að tveir aðrir fangar hafi strokið eða ekki skilað sér eftir dagsleyfi auk þess sem að samfangi þeirra sneri ekki aftur eftir slíkt leyfi.

Yfirmaður fangelsismála í Berlín hefur verið harðlega gagnrýndur vegna málsins en hann segir að stofnuð veðri sérstök nefnd til þess að koma auga á og lagfæra veikleika í fangelsum borgarinnar, svo koma megi í veg fyrir að fangar strjúki jafn auðveldlega og raun ber vitni undanfarna daga.

Öryggisráðstafanir í Plötzensee-fangelsinu eru ekki jafn miklar og í öðrum fangelsum og geta fangar fengið dagsleyfi, með því skilyrði að þeir skili sér aftur í fangelsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×