Bíó og sjónvarp

151 milljón frá íslenska ríkinu vegna Justice League

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bruce Wayne horfir yfir Djúpavík í Justice League.
Bruce Wayne horfir yfir Djúpavík í Justice League.
Bandaríska ofurhetjumyndin Justice League fékk 151 milljón króna endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna framleiðslu myndarinnar hér á landi. Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum á allt að 25 prósent af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur birt yfirlit yfir þau verkefni sem fengu endurgreiðslu á síðasta ári. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni er að framleiðslan sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.

Hæsta endurgreiðslan rann til Justice League sem tekin var upp hér á landi árið 2016. Mikið var um að vera í Djúpavík á Ströndum þar sem tökur hér á landi fóru fram.  Í myndinni má heyra Ingvar E. Sigurðsson tala íslensku ásamt einum aðalleikaranna, Jason Momoa.

Bandaríski sjónvarpsþátturinn Black Mirror fékk 98 milljónir í endurgreiðslu en þriðji þáttur fjórðu seríu var tekinn upp hér á landi í febrúar síðastliðnum þar sem tökuliðið sást meðal annars í miðborg Reykjavíkur. Fóru tökurnar einnig fram í yfirgefinni hlöðu við Grænavatn og við Kleifarvatn í mars síðastliðnum.

Kvikmynd Baltastar Kormáks, Eiðurinn, fékk 89 milljónir í endurgreiðslu og önnur þáttaröð Fortitude fékk 81 milljón í endurgreiðslu. Þættirnir voru teknir upp á Austurlandi í febrúar árið 2016.

Bandarísku þættirnir sívinsælu Game of Thrones fengu um 75 milljónir en tökulið og leikarar þáttanna hafa verið tíðir gestir hér á landi undanfarin ár. Engin breyting verður þar á fyrir næstu þáttaröð þáttanna, sem jafnframt er sú síðasta. Von er á tökuliði á vegum þáttanna hér á landi í næsta mánuði, líkt og Vísir greindi frá fyrir skömmu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×