Erlent

Ekkert lát á mótmælum í Íran

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekkert lát er á mótmælunum í Íran sem nú hafa staðið yfir tæpa viku. Írani sem er búsettur hér á landi segir að ástandið sé afar viðkvæmt og að viðbrögð stjórnvalda í Teheran muni ráða miklu um þróun mála.

Mótmælin hófust á fimmtudag í síðustu viku í borginni Mash-had og hafa smám saman verið að breiðast út til annarra borga og bæja í landinu.

Að minnsta kosti 21 hefur látið lífið þegar til átaka hefur komið milli mótmælenda og öryggissveita. Í fyrstu voru mótmælendur að lýsa yfir andúð sinni á spillingu og hækkandi verðlagi en á síðustu dögum hafa þeir í vaxandi mæli verið að beina spjótum sínum að æðstu ráðamönnum.

Stjórnvöld í Teheran segja að óvinveitt ríki hafi reynt að magna upp mótmælin til að grafa undan stöðugleika í landinu og efndu sjálf til samstöðufunda í stærstu borgum Írans í dag.

Ali Amoushahi er fæddur uppalinn í Íran en hefur verið búsettur hér á landi í tvo áratugi. Hann segir að ungt fólk í Íran sé líka að mótmæla slæmu atvinnuástandi.

„Þetta hófst á fimmtudaginn í síðustu viku og þá var þetta mun minna en núna. Nú virðist þetta vera orðið mun pólitískara því það er greinilega mikil ónánægja í landinu, sérstaklega meðal ungu kynslóðarinnar sem glímir við atvinnuleysi,“ segir Ali.

Hann segir að ástandið sé afar viðkvæmt. 

„Allt veltur á því hvernig stjórnvöld taka á vandanum. Ef of mikill þrýstingur verður settur á fólkið gæti það séð nýjar leiðir opnast til að fara út á göturnar. Vissulega hafa verið mótmæli í dag í Íran til stuðnings stjórninni, en stjórnvöld hafa auðvitað sjálf skipulagt þau,“ segir Ali

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×