Innlent

Vilja ógilda starfsleyfi kísilversins í Helguvík

Höskuldur Kári Schram skrifar
Íbúar í Reykjanesbæ undirbúa nú málsókn á hendur United Silicon til að ógilda starfsleyfi kísilversins í Helguvík. Einn af forsvarsmönnum hópsins sem stendur á bak við málsóknina segir að opinberar eftirlitsstofnanir hafi brugðist í málinu.

Kísilver United Silicon í Helguvík var gangsett í nóvember árið 2016 og fljótlega eftir það fóru íbúar í nágrenni verksmiðjunnar að kvarta undan mengun og öðrum óþægindum.

Umhverfisstofnun hefur ítrekað gert athugasemdir við starfsemina. Slökkt var ofni verksmiðjunnar í september á síðasta ári og hefur öll framleiðsla legið niðri síðan þá.

Fyrirtækið fór í greiðslustöðvun í ágúst sem var svo framlengd til 22. janúar næstkomandi.

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík voru sérstaklega stofnuð til að berjast gegn áframhaldandi rekstri verksmiðjunnar. Samtökin hafa staðið fyrir fjölmennum íbúafundum í Reykjanesbæ og safna nú liði til að höfða mál til ógildingar á starfsleyfi kísilversins.

Fulltrúar samtakanna hafa fundað með lögmönnum og kallað eftir gögnum sem tengjast málinu.

Þórólfur Júlían Dagsson sem situr í stjórn samtakanna segir að opinberir eftirlitsaðilar hafi brugðist í málinu og margt sé athugavert við starfsleyfi verkmiðjunnar.

„Að mínu mati lítur út fyrir að þetta starfsleyfi sé hreinlega falsað. Sést best á byggingunum. Þetta eru ekki sömu byggingarnar og voru auglýstar í þessu starfsleyfi. Hæðin er allt önnur og mengunarspá stenst ekki. Þetta er ekki eitthvað eitt heldur eiginlega bara allt,“ segir Þórólfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×