Innlent

650 þúsund krónur fyrir sólarhrings vinnu í niðurfelldu máli

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hæstiréttur taldi skylt að ákveða sakarkostnað.
Hæstiréttur taldi skylt að ákveða sakarkostnað. vísir/gva
Íslenska ríkið var í Hæstarétti í gær dæmt til að greiða rúmlega 650 þúsund króna máls­varnarlaun verjanda í sakamáli sem aldrei náði í aðalmeðferð.

Málið var höfðað með ákæru 1. desember síðastliðinn og fór fyrsta þinghald í málinu fram þann 20. desember. Við upphaf þinghalds lýsti saksóknari, frá embætti héraðssaksóknara, því yfir að hann léti málið niður falla en að ný ákæra hefði verið gefin út vegna málsins. Í því máli hefði heiti brots verið breytt úr „sérstaklega hættulegri líkamsárás“ í „tilraun til manndráps“. Aðrar lítilsháttar breytingar voru gerðar á ákærunni.

Verjandi mannsins mótmælti niðurfellingunni og krafðist úrskurðar þar um. Þá krafðist hans sakarkostnaðar vegna niðurfellingarinnar. Héraðsdómari féllst á niðurfellinguna en taldi að ákvörðun sakarkostnaðar ætti að bíða efnisdóms í hinu nýja máli.

Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar þann 22. desember síðastliðinn. Hæstiréttur taldi að í úrskurði héraðsdóms hefði borið að kveða á um hvort fella ætti sakarkostnað á ríkið eður ei. Breytti þar engu að nýtt mál hefði verið höfðað.

Af tímaskrá verjandans þótti ljóst að hann hefði varið 25 klukkustundum í rekstur málsins frá 1. desember. Voru honum því dæmdar 527 þúsund krónur í máls­varnarlaun og 124 þúsund krónur í kærumálskostnað. Sá kostnaður greiðist úr ríkissjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×