Erlent

Lofar lagasetningu til að sporna við fölskum fréttum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vill sporna við útbreiðslu falsfrétta í kringum kosningar í landinu.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vill sporna við útbreiðslu falsfrétta í kringum kosningar í landinu. vísir/getty
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur lofað lagasetningu til að sporna við fölsum fréttum á internetinu í aðdraganda kosninga í landinu. Þetta kom fram í nýársræðu hans til blaðamanna í Élysée-höllinni í kvöld þar sem forsetinn sagðist vilja nýja löggjöf fyrir samfélagsmiðla í kringum kosningar til þess að vernda lýðræðið.

Macron sagði að þess yrði ekki langt að bíða að frumvarp um þetta liti dagsins ljós en meginmarkmið laganna væri að sporna við útbreiðslu falskra frétta sem fara hratt um internetið, ekki síst í krafti samfélagsmiðla á borð við Facebook.

Ný löggjöf um vefsíður myndi fela í sér meiri kröfur um gagnsæi vegna kostaðs efnis. Vefsíðurnar þyrftu þannig að gefa það upp hver eða hverjir væru fjárhagslegir bakhjarlar þeirra auk þess sem hámark yrði sett á upphæðir kostað efni.

Hvað varðar falskar fréttir sem birtast svo í kringum kosningar þá gætu einhvers konar neyðarlög leyft yfirvöldum að fjarlægja efnið eða jafnvel loka fyrir vefsíðuna sem birti það.

„Ef við viljum vernda frjálslynd lýðræðisríki þá verðum við að vera sterk og hafa skýrar reglur,“ sagði Macron.

Þá sagði hann að franska fjölmiðlaeftirlitið yrði eflt svo það gæti barist gegn hvers kyns tilraunum erlendra sjónvarpsstöðva til að stuðla að óstöðugleika.

Macron hafði betur í frönsku forsetakosningunum í fyrra gegn Marine Le Pen. Í aðdraganda kosninganna varð hann sjálfur fyrir barðinu á fölskum fréttaflutningi þar sem því var haldið fram að hann ætti reikninga á aflandseyjum. Þá þurfti hann að neita sögusögnum að hann héldi fram hjá konunni sinni með karlmanni sem hann ætti í ástarsambandi við.


Tengdar fréttir

Falsfréttir dreifast um heiminn

Mikilvægasta ráðið sem hægt er að gefa í baráttunni við falsfréttir er að treysta á almenna skynsemi. En býrðu yfir henni? Eða hafa falsfréttir mengað dómgreind þína?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×