Sport

Vill fá titilbardaga áður en hann þarf að sinna herskyldu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Choi í bardaganum gegn Cub Swanson.
Choi í bardaganum gegn Cub Swanson. vísir/getty
Suður-Kóreubúinn Dooho Choi ætlar sér stóra hluti í UFC en hann þarf að hafa hraðar hendur því fljótlega þarf hann að taka sér hlé frá bardagaíþróttum.

Choi er orðinn 26 ára gamall og bíður eftir því að fá boð um að sinna herskyldu. Allir karlmenn í Suður-Kóreu þurfa að sinna tveggja ára herskyldu.

„Það er líklega svona ár þangað til ég verð kallaðir í herinn. Ég vil fá tækifæri til þess að berjast um titilinn áður,“ sagði Choi sem er kallaður kóreski undradrengurinn í bardagaheiminum.

Hann er í þrettánda sæti á styrkleikalista UFC í fjaðurvigtinni. Hann var á mikilli siglingu í UFC er hann tapaði gegn Cub Swanson í hörkubardaga sem fór alla leið fyrir rúmu ári síðan.

Choi verður í eldlínunni þann 14. janúar er hann berst við Jeremy Stephens sem er í níunda sæti stykleikalistans. Klári hann þann bardaga getur orðið stutt í toppinn. Ef hann nær ekki markmiði sínu strax þá ætlar hann að halda áfram að æfa í hernum og koma enn sterkari til baka eftir herskylduna.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×