Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Japan 39-34 | Ungu strákarnir okkar unnu líka strákana hans Dags

Einar Sigurvinsson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánsson var markahæstur með 9 mörk.
Arnar Birkir Hálfdánsson var markahæstur með 9 mörk. vísir/eyþór
Ísland sigraði Japan með fimm mörkum, 39-34, í Laugardalshöll í kvöld. Hópur Íslands var skipaður leikmönnum sem hafa þótt skarað fram úr í Olís-deildinni á þessu tímabili.

Japanar byrjuðu leikinn af miklu krafti og voru ívið sterkari í fyrri hluta hálfleiksins. Á 16. mínútu náðu þeir þriggja marka forystu 6-9. Einar Guðmundsson, þjálfari Íslands í leiknum, tók þá leikhlé og allt annað var að sjá leik liðsins í kjölfarið.

Íslendingar skoruðu næstu fjögur mörk og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum á 21. mínútu, 10-9. Þar með var Ísland komið með yfirhöndina og tókst Japönum ekki að komast aftur yfir það sem eftir lifði leiks. Hálfleikstölur voru 18-16, Íslandi í vil.

Bæði liðin byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og á 34. mínútu jöfnuðu gestirnir leikinn, 20-20. Íslendingar fóru þá að finna taktinn í sókninni náðu fljótt aftur þriggja marka forskoti, 24-21.

Leikurinn var gríðarlega hraður og voru bæði lið að nýta nánast hverja einustu sókn. Þrátt fyrir gífurlegan fjölda marka varð leikurinn aldrei sérstaklega spennandi, en Íslendingar litu aldrei út fyrir að missa leikinn frá sér. Lokatölur voru 39-34, fimm marka sigur Íslands í fjörugum leik.

Af hverju vann Ísland leikinn?

Undir flestum kringumstæðum eiga 39 mörk að duga til að vinna handboltaleiki. Ísland var að spila gríðarlega flottan sóknarbolta sem Japanar áttu erfitt með að finna svör við.

Hverjir stóðu upp úr?

Þegar svona mörg mörk eru skoruð er erfitt að nefna einstaka leikmenn, en öll sóknarlína Íslands átti mjög góðan leik. Arnar Birkir Hálfdánsson var markahæstur í liði Íslands með 8 mörk. Næstur á eftir honum var Gísli Þorgeir Kristjánsson með 6 mörk.

Markahæsti maður vallarins Shinnosuke Tokuda með 9 mörk.

Hvað gekk illa?

Vörn og markvarsla voru ekki upp á marga fiska í hvorugu liðinu. Grétar Ari og Viktor Gísli voru samtals með um tíu bolta varða og markverðir Japana voru með svipaða tölfræði.

Hvað gerist næst?

Íslenska A-landsliðið er mætt til Þýskalands þar sem það leikur tvo æfingarleiki gegna heimamönnum, á morgun og á sunnudag. Því næst tekur við Evrópmótið í Krótatíu en fyrsti leikur okkar Íslendinga verður þann 12. janúar.

Dagur Sigurðsson lætur sína menn heyra það.Vísir/Eyþór
Dagur Sigurðsson: Aðeins meiri pungur í þessu

Þjálfari Japan, Dagur Sigurðsson var nokkuð jákvæður þrátt fyrir tap sinna manna, 39-34, gegn Íslandi í kvöld.

„Þetta er bara mjög jákvætt. Það var meiri harka í þessu heldur en í gær, eins og við vildum sjá. Allt eins og maður vill sjá í æfingarleik og ekkert skrítið að þessi lið séu aðeins nær hvort öðru. Bæði ung og óreynd.“

„Þessir leikur var líkari okkur en fyrri leikurinn, þetta var líkara seinni hálfleiknum í gær, aðeins meiri áræðni. Aðeins meiri pungur í þessu.

Japan tapar leiknum með með fimm mörkum þrátt fyrir að skora 34 mörk. Eiga 34 mörk ekki að vera nóg til þess að vinna handboltaleiki?

„Jú fyrir flest lið, en ekki fyrir okkur. Okkur skortir svolítið á markvörslu og varnarleik, þannig að við þurfum að laga okkur þar.“

Þrátt fyrir tvo tapleiki er Dagur þó á heildina litið ánægður með ferðalag sinna manna til Íslands.

„Við getum tekið þrjá ágætis hálfleika út úr þessu, þó að við höfum tapað báðum leikjunum. Þetta fer í reynslubankann,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari Japan að lokum. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leiknum í kvöld.Vísir/Eyþór
Einar Guðmundsson: Frábært að fá þennan leik

Einar Guðmundsson, íþróttastjóri HSÍ og þjálfari Íslands í leiknum í kvöld, var að vonum ánægður með sigurinn.

„Við vorum bara skrefinu á eftir þeim fyrstu fimmtán mínúturnar, þeir komu hratt á okkur og spiluðu af miklu meiri krafti heldur en þeir voru að gera í gær. En eftir fyrsta leikhlé lögum við vörnina, náðum yfirhöndinni. Svo var ég var ánægður með 5-1 vörnina í seinni hálfleik þar sem Aron Dagur nær að hægja á þeim sóknarlega.“

Ísland skoraði 39 mörk í kvöld. Einar var að vorum sáttur með sóknarleikinn en vildi þó meina að rými hefði verið til að bæta enn frekar í .

 

„Við erum að skora 35 mörk úr uppstilltum sóknarleik, það er mjög gott en fjögur mörk úr hraðaupphlaupum er minna en ég vil. Fjögur mörk úr hraðaupphlaupum er mjög lítið, ég vil skora tíu mörk úr hraðaupphlaupum.“

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi fengið á sig 34 er það ekki neitt til að hafa áhyggjur af, segir Einar.

„Þetta var mjög hraður leikur, við erum að spila einhverjar 70 til 80 sóknir í leiknum, bæði liðin voru að spila mjög hratt. Þannig að það er alveg eðlilegt.“

„Ég er bara ánægður með leikinn í heild, það er bara frábært að fá þennan leik. Þetta er frábært tækifæri fyrir leikmennina að fá að mæta sterku liði sem spilar svona óhefðbundinn handbolta. Þetta er ekki handbolti sem þeir eru vanir, þeir þurfa að bregðast við og læra mikið af því,“ sagði Einar Guðmundsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira