Erlent

Lítil loftmengun í skamman tíma tengd við ótímabær dauðsföll

Kjartan Kjartansson skrifar
Þykk mengunarþoka lá yfir höfuðborgarsvæðinu á nýársnóttu. Ný rannsókn bendir til að lág gildi loftmengunar í skamman tíma leiði til aukinnar dánartíðni.
Þykk mengunarþoka lá yfir höfuðborgarsvæðinu á nýársnóttu. Ný rannsókn bendir til að lág gildi loftmengunar í skamman tíma leiði til aukinnar dánartíðni. Vísir/Egill
Vísindamenn við Harvard-háskóla hafa tengt skammtíma loftmengun við ótímabær dauðsföll eldri borgara í Bandaríkjunum. Eldra fólk sem andar að sér fínum mengunarögnum og ósoni í skamman tíma, jafnvel þó að styrkurinn sé vel undir heilsumörkum, er líklegra til að deyja fyrir aldur fram.

Í frétt á vef Harvard-háskóla kemur fram að fyrri rannsóknir hafi tengt aukna dánartíðni við fínt svifryk (PM 2,5) og óson. Ný rannsókn vísindamanna við Harvard er sögð sú ítarlegasta á fólki sem verður fyrir mengun í skamman tíma og áhrif þess á dánartíðni. Grein um rannsóknina birtist í Riti læknafélags Bandaríkjanna (JAMA) á öðrum degi jóla.

„Við komumst að því að dánartíðni eykst nánast línulega eftir því sem loftmengun eykst. Öll loftmengun, alveg sama hversu lítil hún er, er skaðleg heilsu manna,“ segir Francesca Dominici, prófessor í líftölfræði og aðalhöfundur rannsóknarinnar.

Vísindamennirnir notuðu líkan um dreifingu loftmengunar yfir Bandaríkjunum og tengdu gögnin við tölur um dánartíðni yfir þrettán ára tímabil. Niðurstaða þeirra var að dánartíðnin jókst um 1,05% fyrir hver tíu míkrógrömm fínna rykagna í rúmmetra.

Leiðir til hundruð dauðsfalla aukalega á ári

Þó að hlutfallshækkunin sé tiltölulega lág þýðir hún að hækkun í gildi fínnar loftmengunar um 1 míkrógramm á rúmmetra leiddi til 550 dauðsfalla til viðbótar á ári og rúmlega sjö þúsund á þrettán ára tímabili rannsóknarinnar. Dánartíðni jókst einnig með auknum styrk ósons.

Qian Di, aðalhöfundur annarrar rannsóknar á langtímaáhrifum loftmengunar á dánartíðni fólks frá því í sumar, telur að niðurstöður nýju rannsóknarinnar um skammtímaáhrif ættu að vera Umhverfisstofnun Bandaríkjanna tilefni til að endurmeta loftgæðaviðmið.

Töluverð umræða hefur verið um loftmengun af völdum flugelda á Íslandi í kringum þessi áramót. Mikil notkun flugelda í bland við óhagstæðar veðuraðstæður olli því að hæstu sólahringsgildi svifryksmengunar frá upphafi mælinga mældust á fyrstu klukkustund ársins við Grensásveg í Reykjavík. Styrkurinn var meiri en í eldgosum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.


Tengdar fréttir

Sævar Helgi leggur til að banna almenna notkun flugelda

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari og vísindamiðlari, segir að umhverfissjónarmið verði að vega þyngra en það skemmtanagildi sem felst í því að sprengja flugelda. Hann er sannfærður um að fólk geti skemmt sér án þess að því fylgi læti, hávaði og mengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×