Tónlist

Ætla að semja og æfa nýtt efni á Íslandi í janúar

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Íslenska hljómsveitin Kaleo, sem hefur slegið í gegn utan landsteinanna undanfarin misseri, hyggst semja og æfa nýtt efni hér á Íslandi í janúar.

Davíð Antonsson, Dabbi, trommari Kaleo og bassaleikarinn Daníel Kristjánsson, Danni, kíktu í spjall til Ómars Úlfs á X-inu í dag. Þar ræddu þeir viðburðarríkt ár, þar sem tónleikaferðalag um heiminn bar hæst, og snertu einnig á því sem framundan er hjá sveitinni.

„Við erum að taka okkur smá tíma í að æfa og búa til nýtt efni. Við ætlum ekki að túra jafn mikið á næsta ári heldur að fara að vinna í nýrri plötu. En við munum alveg túra eitthvað,“  sagði Danni en næst stígur Kaleo á stokk í Suður-Ameríku, nánar tiltekið í Brasilíu, Argentínu og Chile á tónlistarhátíðinni Lollapalooza í mars.

Sjá einnig: Kaleo mest gúgglaðir

Þá sögðust Danni og Dabbi báðir spenntir fyrir því að semja og spila ný lög á tónleikum en sú vinna tekur við nú í janúar.

„Við verðum hér út janúar,“ sagði Danni og bætti við að upptökur færu fram á nokkrum stöðum. „Við gerum líklegast eitthvað hér heima, eitthvað í LA og eitthvað í Nashville.“

Hljómsveitin Kaleo hefur notið gríðarmikilla vinsælda síðustu ár, og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, en sveitin var nýlega tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta rokkflutning ársins á laginu No Good. Grammy-verðlaunahátíðin fer fram þann 28. janúar næstkomandi.

Hlusta má á viðtal Ómars Úlfs við Danna og Dabba í Kaleo í heild í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Kaleo mest gúgglaðir

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Sigurðsson var sá Íslendingur sem Íslendingar gúggluðu hvað oftast á árinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.