Innlent

Íbúar númer 8.999 og 9.000 í Árborg heiðraðir

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Íbúar númer 8.999 og 9.000 í Sveitarfélaginu Árborg, Stefán sem er pípulagningameistari og Bára sem hefur starfað sem starfsstúlka á dvalarheimilum aldraðra.
Íbúar númer 8.999 og 9.000 í Sveitarfélaginu Árborg, Stefán sem er pípulagningameistari og Bára sem hefur starfað sem starfsstúlka á dvalarheimilum aldraðra. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Íbúar Sveitarfélagsins Árborgar eru nú komnir yfir 9.000 og af því tilefni voru hjónin Stefán Hafsteinn Jónsson og Bára Leifsdóttir heiðruð síðdegis en þau eru nýflutt í húsið við Gráhellu 6 á Selfossi.

Stefán var íbúi númer 8.999 og Bára númer 9.000. Þau tóku á móti blómvendi af þessu tilefni frá Kjartani Björnssyni, forseta bæjarstjórnar og Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Stefán og Bára bjuggu á Selfossi fyrir fimmtán árum, en fluttu þá til Reykjavík og eru nú komin aftur á Selfoss.

„Það er frábært að vera komin hingað aftur, við erum alsæl með það. Þá spillir ekki fyrir hvað það er stutt að keyra upp á Skeið en þar eigum við hús á bænum Kálfhóli í Skeiða og Gnúpverjahreppi þar sem við vorum kúabændur til margra ára,“ segir Bára.



Stefán og Bára, ásamt Kjartani Björnssyni, forseta bæjarstjórnar og Ástu Stefánsdóttur,framkvæmdastjóra sveitarfélagsins.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Fjölgaði um  553 manns 2017

Íbúum í Árborg fjölgaði um 553 manns á árinu 2017 sem er 6,17% fjölgun. Það hefur fjölgað í öllum byggðarkjörnunum og í dreifbýlinu.  Á Selfossi fjölgaði mest eða um 423, á Eyrarbakka um 24 og á Stokkseyri um 49. Á því svæði sem áður tilheyrði Sandvíkurhreppi fjölgaði um 18 manns. Reiknað er með að íbúunum munu fjölga enn frekar á árinu 2018.

„Já, ég á von á því að það muni eitthvað halda áfram að fjölga á næsta ári, jafnvel þó að eitthvað kunni að hægja á. Það er mikið af húsnæði í byggingu hér ennþá og margar íbúðir munu koma á markaðinn á árinu 2018,“ segir Ásta.

„Það er mjög ánægjulegt að svona margir skuli velja Sveitarfélagið Árborg sem stað til að búa á. Þjónustan hér stenst allan samanburð á landsvísu, sama hvort horft er til þjónustu við börn og ungmenni, eldri borgara eða aðra hópa og mikil uppbygging framundan t.d. hvað varðar aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra, hjúkrunarheimili, íþróttamannvirki og leik- og grunnskóla,“ segir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

„Hækkandi fasteignaverð hér virðist ekki hafa dregið úr straumnum. Það er líka ánægjulegt að það skuli fjölga fólki alls staðar í sveitarfélaginu. Mörg lítil þorp eru í varnarbaráttu og glíma við fækkun íbúa, en á Eyrarbakka og Stokkseyri fjölgar fólki. Einnig virðast margir telja það góðan kost að búa í dreifbýlinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×