Innlent

Leiðakerfisbreytingar Strætó taka gildi á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Umfangsmiklar breytingar á leiðakerfi og þjónustustigi Strætó munu taka gildi á morgun, sunnudaginn 7. janúar. 

Þjónustutími verður lengdur á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15 og 18 til klukkan 01:00 á kvöldin eða sem því næst.

Leiðakerfisbreytingar:

  • Leið 6 mun aka á 10 mínútna tíðni á annatímum. Sama fyrirkomulag hefur verið á leið 1 í rúmt ár og hefur það reynst vel. Leið 6 styttist einnig og mun hún eftir breytingar enda og byrjar ferðir sínar í Spöng í stað Mosfellsbæjar.
  • Leið 7 ekur þann hluta sem klipptur var af leið 6. Helgafellslandið og Leirvogstunga bætast einnig við sem nýir áfangastaðir.
  • Leið 28 verður stytt og mun leiðin ekki lengur aka í Mjódd. Leiðin mun í staðinn aka milli Hamraborgar og Dalaþings.
  • Leið 2  mun aka þann hluta sem klipptur var af leið 28, þ.e. um Kórahverfið og í Mjódd.
  • Leið 21 hættir að aka um Bæjarhraun og Hólshraun í Hafnarfirði. Leiðin mun í staðinn aka um Arnarnesveg, Smárahvammsveg og Fífuhvammsveg framhjá Smáralind í báðar áttir. Þjónustutími leiðarinnar lengist um klukkustund á kvöldin og að auki verður ekið á sunnudögum.
  • Leið 35 hefur hingað til einungis ekið hringinn sinn réttsælis og tveir vagnar hafa verið settir á leiðina á annatímum. Eftir breytingarnar 7. janúar munu tveir vagnar aka leið 35 allan daginn; annar þeirra ekur hringinn réttsælis og hinn ekur hringinn rangsælis.
Næturakstur úr miðbænum hefst aðfaranótt laugardagsins 13. janúar

Sérstakur næturakstur Strætó úr miðbænum verður aðfaranætur laugar- og sunnudags milli klukkan 01:00-04:30, eða sem því næst. Næturaksturinn hefst aðfaranótt laugardagsins 13. janúar.

Sex leiðir verða í næturakstrinum:

  • Leið 101 – Hafnarfjörður
  • Leið 102 – Kópavogur
  • Leið 103 – Breiðholt
  • Leið 105 – Norðlingaholt
  • Leið 106 – Mosfellsbær
  • Leið 111 - Seltjarnarnes
Næturvagnarnir munu annað hvort byrja akstur við Stjórnarráðið eða á Hlemmi. Fólk getur einungis tekið á vagnana á biðstöðvum í áttina út úr miðbænum.

Stakt fargjald með næturvögnum verður 920 krónur eða 2 strætómiðar. Handhafar strætókorta geta hins vegar notað kortin í næturvagnana án frekari kostnaðar.

Einungis verður gefinn upp brottfarartími úr miðbænum. Vagnarnir munu því ekki fylgja sérstakri tímaáætlun eftir að lagt er af stað frá Hlemmi eða Stjórnarráðinu. Farþegar sem vilja taka vagnana á öðrum biðstöðvum er því ráðlagt að fylgjast með staðsetningu vagnanna í appinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×