Innlent

Nefnd um dómarastörf tók kvörtun Jóns Steinars ekki til greina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Máli Jóns Steinars var vísað frá.
Máli Jóns Steinars var vísað frá. vísir/gva
Nefnd um dómarastörf tók ekki til umfjöllunar kvörtun Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara, þess efnis að meirihluti dómara við Hæstarétt hafi gert á hlut hans er Jón sótti um sem dómari. Niðurstöður nefndarinnar voru nýlega birtar á nýrri heimasíðu Dómstólasýslunnar.

Í kvörtun Jóns Steinars segir að þegar hann hafi sótt um embættið árið 2004 hafi átta af níu dómurum við dómstólinn ekki viljað fá hann í sinn hóp. Þá segir hann að „einum þeirra [hafi] verið falið á þeim tíma að flytja álitsbeiðanda skilaboð um það sem og hvatningu um að falla frá hugmyndum um að sækja um embættið. Jafnframt hefði honum verið tjáð að léti hann verða af því að sækja um embættið, yrði hann skaðaður með umsögn réttarins“.

Í erindinu kemur enn fremur fram að dómararnir hafi staðið við framsetta hótun. Settur dómsmálaráðherra hafi hins vegar „ekki látið meirihluta Hæstaréttar komast upp með þetta framferði“ og skipað Jón Steinar í embætti hæstaréttardómara.

Jón Steinar hafði áður kvartað til innanríkisráðuneytisins árið 2016 en ráðuneytið vísaði honum til nefndar um dómarastörf þar sem erindið heyrði undir varðsvið hennar.. Ráðuneytið taldi að nefndinni bæri að fjalla um öll störf dómara í embætti sínu, hvort sem þau vörðuðu einstök dómsmál eða stjórnsýsluverkefni sem heyra undir verksvið dómara landsins.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir hins vegar að mál Jóns Steinars taki til stjórnsýslu dómstólanna en þangað nái valdsvið hennar ekki. Að auki hafi sjö af þeim átta dómurum, sem kvörtunin beinist að, látið af störfum. Agavald nefndarinnar nái aðeins til þeirra dómara sem enn séu starfandi. Málinu var vísað frá nefndinni af þeim sökum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×