Tónlist

Lana del Rey breytti lagatextum og skaut á Radiohead eftir lögsóknina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Thom Yorke er söngvari Radiohead sem lögsótt hefur Lönu del Rey fyrir lagastuld.
Thom Yorke er söngvari Radiohead sem lögsótt hefur Lönu del Rey fyrir lagastuld. Vísir/Getty
Söngkonan Lana del Rey nýtti tækifærið á tónleikum hennar í Denver í gær og skaut á bresku hljómsveitina Radiohead sem kært hefur söngkonuna fyrir lagastuld. Hnýtti hún í Radiohead með breyttum lagatextum auk þesss sem hún ræddi stuttlega um lögsóknina.

Greint var frá lögsókninni í gær en Radiohead telur að lag hennar„Get Free“ sé svo keimlíkt laginu þeirra „Creep“ að það sé augljóslega stolið. Staðfesti söngkonan orðróma um lögsóknina á Twitter í gær þar sem hún sagði að hún hefði boðið þeim fjörutíu prósent af höfundarréttargreiðslum lagsins, þeir vilji hins vegar 100 prósent og muni deilan verða útkljáð fyrir dómstólum.

Lana del Rey, sem er á tónleikaferðalagi um heiminn, hélt tónleika í Denver í Bandaríkjunum í gær og miðað við myndbrot sem tónleikagestir hafa birt á samfélagsmiðlum í dag má ljóst telja að lögsóknin sé bandarísku söngkonunni ofarlega í huga. Vísaði hún minnst tvisvar í deiluna um höfundarréttinn með því að breyta lagatextum.

Í laginu „Pretty When You Cry“ strax í upphafi tónleikanna söng hún eftirfarandi línur:

But I don't really mind, I've so much more than that

Like my copyright, I don't need that.

Í stað hins upprunalega texta sem lítur svona út:

But I don't really mind, I've got my drugs and that

Like my memories, I don't need that.

Með orðinu copyright sem á íslensku þýðir höfundarréttur virðist söngkonan því hafa verið að vísa beint í deilu hennar við Radiohead en upptöku af laginu má sjá hér að neðan.

Síðar á tónleikunum skaut hún töluvert fastar á bresku hljómsveitina en í laginu „Ride“ breytti hún texta lagsins og gaf þannig líklegast til kynna að lagið Creep væri eina vinsæla lag hljómsveitarinnar og þeirra helsta tekjulind:

Don't break me down

I've been travelin' too long

I've been trying to get by

on only one hit song.

Upprunalegi textabúturinn er svona:

Don't break me down

I've been travelin' too long

I've been trying to get

With one pretty song.

Myndband af laginu má sjá hér að neðan þegar um ein mínúta er liðin af myndbandinu.

Á tónleikunum ávarpaði söngkonan einnig tónleikagesti sem bauluðu hressilega þegar hún minntist á Radiohead og lögsóknina. Svo virðist sem að mögulegt sé að lagið Get Free verði tekið af næstu útgáfum plötunnar Lust For Life vegna deilunnar.

„Ég vil bara segja ykkur að hvað svo sem gerist í dómstólnum að tilfinningin í þessu tiltekna lagi, sem var persónuleg stefnuyfirlýsing fyrir plötuna, ég mun eltast og berjast fyrir þessari tilfinningu, jafnvel þó að lagið verði ekki á næstu útgáfum plötunnar,“ sagði söngkonan á tónleikunum líkt og sjá má hér fyrir neðan.

Lagið Creep er líklega þekktasta Radiohead og það lag sem skaut hljómsveitinni á stjörnuhimininn þegar það kom út árið árið 1993. Lagið varð ofurvinsælt út um allan heim og er eitt þekktasta lag tíunda áratugs síðustu aldar. Meðlimir sveitarinnar högnuðust vel á vinsældunum og kallaði Thom Yorke meðal annars húsið sem hann keypti árið 1994 „húsið sem Creep byggði“.

Ýmsir hafa þó bent á að ákveðin hræsni sé fólgin í lögsókn Radiohead á hendur söngkonunni þar sem þeir sjálfir sömdu við höfunda lagsins The Air That I Breath sem The Hollies gerðu frægt á áttunda áratug síðustu aldar vegna líkinda á milli lagsins og Creep. Eru þeir Albert Hammond og Mike Hazlewood skráðir sem meðhöfundar Creep og fá þeir hluta þeirra tekna sem lagið aflar.

Owen Pallett, sem helst er þekktur fyrir samstarf sitt með Arcade Fire, hefur bent á að ef lögsókn Radiohead byggi á þeim tiltekna hljómagangi sem finna megi bæði í Creep og lagi Lönu Del Rey sé hann svo algengur að réttast væri að fara í gegnum söngbók Radiohead til þess að komast að því hverju hljómsveitin hafi stolið í gegnum tíðina.

Ljóst er að deilan mun halda áfram en hér að neðan má heyra lögin tvö sem deilt er um.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×