Innlent

Ákærðir fyrir kannabisræktun og að ætla að selja tíu kíló af marijúana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fyrirtaka verður í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni.
Fyrirtaka verður í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni. vísir/gva
Ríkissaksóknari hefur ákært tvo menn á fertugs-og fimmtugsaldri fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Fyrirtaka verður í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni.

Eru þeir ákærðir fyrir að hafa miðvikudaginn 2. apríl 2014, í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði sem þeir höfðu til umráða, haft í vörslum sínum 10 kíló af marijúana. Telur ákæruvaldið að mennirnir hafi ætlað að selja og dreifa efninu.

Þá eru þeir einnig ákærðir fyrir að hafa ræktað kannabis í húsnæðinu en við leit lögreglu þar fundust 61 kannabisplanta og 50 kannabisplöntuhlutar. Er talið að þeir hafi staðið í kannabisræktun í húsnæðinu um nokkurt skeið til þess dags þegar lögreglan fann plönturnar.

Annar mannanna, Kristján Haukur Einarsson, á sakaferil að baki en hann hlaut árið 2011 tveggja og hálfs árs langan dóm í héraði fyrir aðild sína að skotárás sem gerð var í Ásgarði í Reykjavík á aðfangadag 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×