Innlent

Tæplega fimm tonna gámur fauk um eins og pappaspjald

Jakob Bjarnar skrifar
Vindmælir sem Samskip eru með á Vogabakka sló upp í 36 metra á sekúndu í morgun. Og þá lokuðu þeir og forðuðu sér í skjól.
Vindmælir sem Samskip eru með á Vogabakka sló upp í 36 metra á sekúndu í morgun. Og þá lokuðu þeir og forðuðu sér í skjól. visir/andri marinó

Bergvin Magnús Þórðarson, öryggisstjóri hjá Samskipum, segir að þeir hafi þurft að loka starfseminni í morgun, í gámahlutanum á Vogabakka.

„Við gerum það ef vindur fer yfir 30 metra, þá förum við að horfa í kringum okkur. Hér erum við með vindmæli á bryggjunni á Vogabakka, sem við rekum sjálfir. Hann fór í 36 metra klukkan 7:20 og var ekki kominn niður fyrir ásættanleg mörk fyrr en klukkan 10:30. Og þá opnuðum við aftur,“ segir Bergvin. En, veður er nú að ganga niður.

Bergvin segir að fjögurra og hálfs tonna gámur hafi fokið um eins og pappaspjald. En, nú er veður að ganga niður.

Bergvin lýsir þessu svo fyrir blaðamanni Vísis að þá séu allir lyftarar settir í sérstaka stöðu, eins og þeir séu að taka efsta gáminn í stæðunni og svo er drepið og farið inn. Mannskapurinn sendur inn í skjól. Þannig halda lyftararnir við stakkinn þannig að hann getur ekki hrunið.

„Hver stakkur getur verið með hundrað gáma og við höfum verið að horfa á gám sem er fjögur og hálft tonn fjúka um eins og pappír. Þannig að við tökum enga sénsa. Öryggið er númer eitt. Leggjum mikla áherslu á það, að mannskapur sé öruggur.“

Bergvin, sem hefur starfað hjá Samskipum í 30 ár, „nýbyrjaður,“ eins og hann segir, hefur séð það verra. En þetta hafi verið slæmt. „Við höfum verið með veður sem sló uppí 48 metra. Það var hvellur.“ Þetta var fyrir tæpum áratug. Nú bíður Bergvin, sem og aðrir landsmenn eftir næsta veðurham sem verður líkast til á fimmtudaginn, samkvæmt spám.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.