Tónlist

Magnús reynir fyrir sér í tónlistinni í Los Angeles: „Orðinn þreyttur á rútínunni og slabbinu á Íslandi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Magnús með glænýtt lag og myndband.
Magnús með glænýtt lag og myndband.
Magnús Gunnarsson er búsettur í Los Angeles og stundar hann nám í því sem hann kallar pródúseringu í tónlist. Magnús er sjálfur tónlistarmaður og frumsýnir í dag nýtt myndband við lagið No Place Like Home á Vísi.

„Ég er búinn að búa í Kaliforníu núna í 2 og hálft ár. Hér er sól og gott veður allan ársins hring og alltaf nóg um að vera þannig maður lætur sér aldrei leiðast. Það er mjög hollt fyrir Íslending að komast í þannig aðstæður. Ég flutti hingað af mjög einföldum ástæðum, ég þurfti að komast í annað umhverfi og sjá hlutina með öðru ljósi. Maður var orðinn þreyttur á rútínunni og slabbinu á Íslandi og fannst það sem ég var að gera í daglega lífinu ekki nógu krefjandi. Svo er þetta náttúrulega suðupotturinn fyrir tónlistarfólk, hér er annar hver maður að vinna í tónlist.“

Magnús segist vera með hljóðver sem hann hannaði sjálfur heima hjá sér í L.A.

Vinnur allt heima hjá sér

„Það er með öllum helstu græjum þar sem ég get tekið upp meiri hlutann af því sem þarf. Ég hef meðal annars fengið vini hérna úti í heimsókn til að taka upp lög. Það er mjög þægilegt að geta stokkið í stúdíóið þegar hentar. Svo er enginn nálægt þannig ég get spilað eins hátt og ég vil sem er mikill kostur.“

Magnús segir að hugmyndin af laginu No Place Like Home sé í rauninni sú að maður geti verið hvar sem er í heiminum en það sé enginn staður sem jafnist á við heimaslóðirnar.

„Hvað sem fólk tengir við orðið „heima” er svo annað mál. Ég tengi þetta við svo margt, eins og t.d. Ísland, manneskju, æsku, fjölskyldu eða vini. Einn daginn get ég hlustað á lagið og hugsað til Íslands, næsta skipti fjölskyldu og vini og svo kannski annan dag einhverja ákveðna manneskju. Það var hugmyndin af titlinum af laginu.“*

Það er nóg framundan hjá Magnúsi.

„Ég á orðið svolítið af lögum núna og nokkur þeirra hafa verið tekin upp nú þegar. Ætli ég stefni ekki á að gefa út albúm í lok árs eða byrjun næsta árs með kannski 10-12 lögum. Ég á mikið af mismunandi lögum þannig það verður vonandi eitthvað fyrir alla.

Samfélagsmiðlar Magnúsar:

Instagram: IamMagnusGunnarsson

Facebook: IamMagnusGunnarsson

Twitter: IamGunnarsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×