Innlent

Veðrið í morgun „sýnishorn“ fyrir komandi lægðir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar

Von er á því að fleiri lægðir fari yfir landið á næstu dögum. Vonskuveður var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og fuku meðal annars trampólín og heitir pottar.

Næsta lægð er væntanleg seinnipart fimmtudags. Þá verður stormur á fimmtudagskvöld eða jafnvel fyrr að sögn Árna Sigurðssonar veðurfræðings, en rætt var við Árna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Árni segir að sú lægð verði líklega að mörgu leyti áþekk þeirri sem gekk yfir í dag en hún geti jafnvel verið dýpri og að búast megi við meiri úrkomu.

„Það getur verið talsvert mikil úrkoma og menn eru að setja sig í startholurnar að vara við henni,“ segir Árni.

„Það er verið að spá lægð líka á laugardeginum og hún verður álíka. Það verður meiri kuldi með henni, það er meiri kuldi sem kemur þá frá Kanada og hann getur komið til okkar í kjölfarið.“

Gæti jafnvel snjóað þá eitthvað?

„Allavega éljagangur.“

Þannig að þessi lægð sem við fengum í dag, þetta er kannski bara upphitun?

„Það er stundum þannig að þetta kemur í röðum. Það eru syrpur sem koma þegar aðstæður eru þannig að það er öflug hæð yfir Skandinavíu eða þar á þei slóðum og síðan kalt loft yfir Kanada þá myndast þannig aðstæður að þær myndast og koma í röðum til okkar,“ segir Árni.

„Menn eiga að búa sig undir það, þetta var svona sýnishorn sem við fengum í morgun.“


Tengdar fréttir

Lægðirnar koma á færibandi í vikunni

Óveðrið sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið náði hámarki upp úr klukkan 8 í morgun að sögn Árna Sigurðssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.