Innlent

Veðrið í morgun „sýnishorn“ fyrir komandi lægðir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Von er á því að fleiri lægðir fari yfir landið á næstu dögum. Vonskuveður var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og fuku meðal annars trampólín og heitir pottar.

Næsta lægð er væntanleg seinnipart fimmtudags. Þá verður stormur á fimmtudagskvöld eða jafnvel fyrr að sögn Árna Sigurðssonar veðurfræðings, en rætt var við Árna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Árni segir að sú lægð verði líklega að mörgu leyti áþekk þeirri sem gekk yfir í dag en hún geti jafnvel verið dýpri og að búast megi við meiri úrkomu.

„Það getur verið talsvert mikil úrkoma og menn eru að setja sig í startholurnar að vara við henni,“ segir Árni.

„Það er verið að spá lægð líka á laugardeginum og hún verður álíka. Það verður meiri kuldi með henni, það er meiri kuldi sem kemur þá frá Kanada og hann getur komið til okkar í kjölfarið.“

Gæti jafnvel snjóað þá eitthvað?

„Allavega éljagangur.“

Þannig að þessi lægð sem við fengum í dag, þetta er kannski bara upphitun?

„Það er stundum þannig að þetta kemur í röðum. Það eru syrpur sem koma þegar aðstæður eru þannig að það er öflug hæð yfir Skandinavíu eða þar á þei slóðum og síðan kalt loft yfir Kanada þá myndast þannig aðstæður að þær myndast og koma í röðum til okkar,“ segir Árni.

„Menn eiga að búa sig undir það, þetta var svona sýnishorn sem við fengum í morgun.“


Tengdar fréttir

Lægðirnar koma á færibandi í vikunni

Óveðrið sem nú gengur yfir höfuðborgarsvæðið náði hámarki upp úr klukkan 8 í morgun að sögn Árna Sigurðssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×