Innlent

„Þetta kenndi manni hvað það er sem raunverulega skiptir máli“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Erla Björnsdóttir.
Erla Björnsdóttir. vísir/gva
Erla Björnsdóttir sálfræðingur er virkilega skipulögð týpa og notar mikið markmiðasetningu. Erlu finnst áramótaheit frábær og setur sér alltaf þó nokkur. Það er þó ýmislegt sem er gott að hafa í huga þegar kemur að áramótaheitum.

„Mér finnst þó mikilvægt að setja sér ekki einungis markmið um áramót heldur að innleiða markmiðasetningu betur inn í daglegt líf. Það er til dæmis hægt að setja sér nokkur langtímamarkmið sem maður bútar svo niður í smærri skref sem auðveldara er að ráðast í,“ segir Erla.

Hún hefur í mörg ár skrifað í dagbók allt sem skiptir máli, hvort sem það er skipulagið, listar eða markmið. Hún fann sér aldrei dagbók hér á landi sem hentaði svo fyrir tveimur árum endaði hún á að hanna sína eigin dagbók með vinkonu sinni, Þóru Hrund Guðbrandsdóttur.

Óljós og óraunhæf markmið

Hún segir að það þurfi samt að varast það að setja sér of mörg markmið í einu.

„Það sem er mikilvægast í markmiðasetningu er að hafa markmiðin skýr, mælanleg og raunhæf. Ég held að mörg mistök liggji einmitt í því að fólk setur sér ef til vill mörg óljós markmið sem oft eru mjög óraunhæf, það á algerlega að breyta um lífsstíl á núll einni og svo springa því miður margir um miðjan janúar. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgja markvissum skrefum í þessu og vera duglegur að endurskoða og endurskilgreina markmiðin sín ef þau eru ekki að ganga upp eins og maður sá fyrir. Í MUNUM dagbókinni okkar leggjum við til dæmis til að fólk setji sér þrjú yfir markmið fyrir árið sem síðan eru tekin niður í smærri undirmarkmið sem eru gerð mælanleg til þess að auka líkur á árangri. Svo er fólk einnig hvatt til að seta sér sérstök markmið fyrir hvern mánuð, hverja viku og hvern dag.“

Erla heldur að megin ástæðan fyrir því að svo margir gefast upp og standa ekki við áramótaheit sé sú að markmiðin eru of víðtæk og jafnvel óraunhæf.

„Einnig held ég að hluti af ástæðunni liggi í því að fólk er ekki að endurskoða markmiðin sín reglubundið og fylgjast með árangri. Markmiðin eru ef til vill sett á áramótum en svo ekki skoðuð aftur fyrr en áramótin þar á eftir og því ef til vill sumir sem eru sífellt að setja sér sömu áramótaheitin ár eftir ár.“

Erla hannaði sína eigin dagbók sem uppfyllti allar hennar kröfur.Munum
Skipulags-stefnumót á hverju ári

Erla er gift Hálfdáni Steinþórssyni og saman eiga þau fjóra syni. Það er í mörgu að snúast hjá þeim svo skipulag skiptir máli. Þau setja sér alltaf markmið fyrir árið og fara yfir þau saman og skrifa þau niður.

„Mér finnst alltaf gott að setjast niður, líta í baksýnisspegilinn og fara aðeins yfir árið og þau markmið sem ég hafði sett mér í upphafi árs. Í MUNUM dagbókinni okkar erum við einmitt með nokkrar spurningar í lok bókarinnar sem eru mjög gagnlegar fyrir svona yfirlit. Til dæmis finnst mér gott að skoða hvað gekk vel á árinu, hvað stóð upp úr, hvað lærði ég á árinu, hvað mátti fara betur og hvernig get ég bætt mig á næsta ári og svo framvegis. Við hjónin förum alltaf á svona „skipulagsdeit“ í lok árs og þetta er alveg heilög stund hjá þar sem við förum yfir árið okkar og setjum okkur markmið fyrir það næsta.“

Hún bendir á að rannsóknir hafi sýnt það að fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu. „Þeir sem ná langt á sínu sviði eru sjaldnast komnir þangað fyrir einskæra tilviljun, oftast liggur þrotlaus vinna og mjög skýr markmiðasetning þar að baki. Ef við höfum skýr markmið þá erum við búin að marka okkur stefnu sem við vinnum eftir, ef við höfum engin markmið er hætt við því að við villumst af leið og vitum ef til vill ekki hvert okkur langar að stefna.“

Betra að handskrifa

Það er samt ekki nóg að setja sér markmið, það þarf líka að skrifa þau öll niður.

„Þegar við skrifum niður markmiðin okkar er líklegra að við náum þeim. Þau verða raunverulegri fyrir okkur og það verður einhver mögnuð tenging sem á sér stað þegar við skrifum markmið, hugsanir og drauma niður á blað. Það er ekki sama tenging sem á sér stað þegar við skrifum eitthvað inn í tölvuna. Það sem við handskrifum festist betur í minni okkar og nær betur til okkar. Það skiptir máli að gefa sér góðan tíma, hugsa um það hvað það er sem maður virkilega vill gera í lífinu, áfangar sem maður vill ná og hlutir sem manni langar að framkvæma. Til dæmis getur verið góð leið að byrja að skrifa svona „bucket lista“ sem inniheldur 100 atriði sem manni langar að upplifa og framkvæma yfir ævina. Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan rými til þess að hugsa á þennan hátt og margir eru sífellt að fresta draumum sínum þar til hið fullkomna augnablik kemur, en svo bara kemur það ekki og þess vegna verðum við að búa það til. Þegar við erum komin með svona lista þá höfum við góðan leiðarvísi sem við getum síðan unnið áfram með og byrjað að forgangsraða og setja markmiðin upp í rétt skref. Við höfum sett upp átta mikilvæg skref sem þarf að hafa í huga við markmiðasetningu í MUNUM dagbókinni og það er mjög gagnlegt að fara í gegnum þessi skref þegar maður er að setja sér markmið fyrir árið.“

Erla segir að það skipti miklu máli að markmiðin séu nákvæm og sértæk því þá sé miklu auðveldara að framkvæma þau og mæla árangur.

„Til dæmis er markmiðið „Ég ætla að hugsa vel um heilsuna mína” mjög óljóst markmið sem erfitt getur verið að framfylgja og árangursmæla. Hins vegar ef við tökum markmiðið lengra og gerum það mælanlegt og nákvæmt er mun auðveldara að fylgja því eftir. Til dæmis mætti umorða þetta markmið og segja „Ég ætla að hugsa betur um heilsuna mína með því að hreyfa mig að minnsta kosti þrisvar í viku, taka vítamín alla daga og borða fisk tvisvar í viku.” Þarna erum við komin með mun skýrara markmið sem auðveldara er að fylgja eftir.“

MarkmiðatréMunum
Gott skipulag sparar tíma

Hún mælir með því að fólk noti dagbók til þess að forgangsraða verkefnum og halda skipulagi.

„Það að halda góða dagbók gefur okkur gott aðhald varðandi skipulag og tímastjórnun og með því að skrifa verkefni okkar niður er líklegra að við framkvæmum þau.  Í MUNUM dagbókinni leggjum við mjög mikla áherslu á stöðuga og skýra markmiðasetningu og leiðir til að hámarka tímastjórnun. Það að forgangsraða verkefnum okkar, skipuleggja hreyfingu og mataræði og setja okkur markmið til lengri og skemmri tíma margborgar sig og gefur okkur meira svigrúm til þess að sinna því sem mestu máli skiptir en það eru oft þættir sem eru mjög mikilvægir en kannski ekki aðkallandi, eins og að verja tíma með okkar nánustu og sinna andlegri og líkamlegri heilsu. Þessir þættir enda því miður of oft neðarlega á lista okkar ef skipulagið er ekki gott. Ef við erum með gott skipulag spörum við líka tíma en tíminn er það sem við flest þráum meira af.“

Erla segir að oft setji fólki sér skýr markmið í vinnu en gleymi að gera slíkt hið sama með sitt persónulega líf, sem sé svo sannarlega ekki síður mikilvægt.

„Því miður eru allt of margir sem setja sér engin markmið en þegar skoðaðar eru tölur um árangur út frá markmiðasetningu þá er það alveg ljóst að það að setja sér markmið á einhvern hátt er eitthvað sem allir ættu að gera.“

Erla er höfundur bókarinnar Betri svefn og hjálpar í sínu starfi mjög mörgum með svefnvandamál. Fólk ætti alltaf að setja góðan svefn í forgang því að svefninn er gríðarlega mikilvæg grunnstoð heilsu og svefnlaus keyrum við á hálf tómum tanki sem við á endanum þurfum að borga skatt af.

„Þegar kemur að svefninum er regla og rútína algjört lykilatriði. Reyna að fara að sofa á svipuðum tíma á kvöldin og á fætur á svipuðum tíma á morgnana. Einnig er mikilvægt að takmarka skjánotkun á kvöldin og koma sér upp rólegum kvöldvenjum. Reglubundin hreyfing og gott mataræði skiptir líka miklu máli og mikilvægt er að forðast koffein seinnipartinn og draga úr sykurneyslu. Ef fólk er að glíma við svefnleysi eða svefnvandamál er hægt að kynna sér greinar um svefn og svefnleysi og meðferð við slíku inni á vefnum Betri svefn.“

Ætlar að hlaupa maraþon

Erla segir að margt hafi staðið upp úr á árinu hjá sér þar sem þetta hafi verið alveg magnað ár.

„Ég byrjaði árið á að fara í heilsu- og jógaferð með manninum mínum til Tælands sem var hin fullkomna byrjun á árinu. Svo gaf ég út bókina mína Svefn í mars 2017 og opnaði nýjan og endurbættan vef Betri svefns. Ég átti svo alveg dásamlegt sumarfrí með fjölskyldunni í Frakklandi og Ítalíu og samverustundir með strákunum mínum standa algerlega upp úr. Yngsti sonur minn lenti svo í því að lærbrotna illa á leikskólanum í byrjun hausts sem setti rútínuna heldur betur á nýjan stað og var mikil áskorun fyrir hann og okkur öll og þetta kenndi manni hvað það er sem raunverulega skiptir máli og að vera þakklátur fyrir það að ekki fór verr og að hann muni ná sér að fullu af þessu. Síðast en ekki síst hefur árið verið afar viðburðaríkt hjá mér og Þóru í MUNUM útgáfu þar sem við herjuðum á erlendan markað í fyrsta sinn og kynntum nýjar vörur til sögunnar.“

Hún hefur svo sett sér mörg spennandi verkefni fyrir árið 2018, bæði sem snúa að vinnu og einkalífi.

„Í vinnunni eru mörg spennandi verkefni framundan, bæði rannsóknir sem tengjast svefni og enn fleiri nýjungar hjá okkur Þóru í MUNUM. Í einkalífinu ætla að leggja mesta áherslu á heilsu og fjölskyldu og hef sett mér ýmis markmið sem tengjast þessum þáttum. Ég hef til dæmis skráð mig í maraþon og þarf að koma mér í form fyrir það sem verður klárlega mikil áskorun og svo ætla ég að reyna að byrja alla daga á stuttri hugleiðslu. Við fjölskyldan ætlum svo að lesa meira og höfum ákveðið eitt kvöld í viku þar sem við kveikjum upp í arninum og lesum saman og allir verða að lesa að minnsta kosti eina bók í mánuði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×