Menning

Langt síðan leikárið hefur byrjað jafn vel

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Katrín Halldóra hefur slegið í gegn sem Ellý í Borgarleikhúsinu og ásamt samstarfsfólkinu skapað afar vinsæla sýningu.
Katrín Halldóra hefur slegið í gegn sem Ellý í Borgarleikhúsinu og ásamt samstarfsfólkinu skapað afar vinsæla sýningu.
Margt hefur gengið á í leikhúsunum síðustu mánuði en sköpunargleðin og fjölbreytnin hefur blessunarlega verið við völd, allavega hvað varðar leikhús fyrir fullorðna. Nú er lag að líta um öxl, skoða þær sýningar sem staðið hafa upp úr og stefin sem hafa einkennt leikárið hingað til.

Öfgarnar voru við völd í Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinnu.
Bestu sýningar leikársins til þessa koma nánast alveg hvor úr sinni áttinni, sem er mjög forvitnilegt, en eiga það sameiginlegt að vera ögrandi, krefjandi fyrir leikara og byggðar á sterkum texta. Sú fyrri var rokk­kabarettinn Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu framreidd af Þorleifi Erni Arnarssyni og Mikael Torfasyni en sýningin var byggð á rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið. Öfgarnar voru þar við völd sem og tryllingur kapítalismans, öllu var tjaldað til og hressilega kveikt undir áhorfendum. Sýningin fór í gegnum miklar breytingar á æfingatímabilinu og áhættan margborgaði sig. Hin seinni var Faðirinn í Þjóðleikhúsinu eftir Frakkann Florian Zeller í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Þarna var á ferðinni látlaus en afar snjöll sýning þar sem gífurlegur listrænn metnaður umlék alla pósta, enda valinkunn manneskja í hverju rúmi. Leikarahópurinn var líka með þeim sterkari. Nú á dögunum var tilkynnt að Kristín fengi heiðurslaun listamanna og er hún vel að heiðrinum komin enda einn af albestu leikstjórum landsins.

Katrín Halldóra hefur slegið í gegn sem Elly í Borgarleikhúsinu og ásamt samstarfsfólkinu skapað afar vinsæla sýningu.
Eitthvað hefur birt til yfir íslenskri leikritun á síðustu mánuðum en nokkur ný leikrit litu dagsins ljós, þó að Guð blessi Ísland sé á mörkunum enda byggt á öðru verki sem og Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson sem er endurskrifað. Í Tjarnarbíói frumsýndi Sómi þjóðar hið áhugaverða og tölvuvædda SOL í byrjun desember og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir skrifaði barnaleikritið Íó fyrir sama svið. Þjóðleikhúsið lokaði þríleik Ragnars Bragasonar með Risaeðlunum og í Borgarleikhúsinu mátti sjá Natan eftir Sölku Guðmundsdóttur og Kartöfluæturnar eftir Tyrfing Tyrfingsson sem gekk fyrir fullu húsi við mikið lof gagnrýnenda þegar sýningin þurfti frá að hverfa vegna tvíbókunar á Litla sviðinu.

Auðvitað er það gleðilegt þegar sýningar ganga vel en framlengingar á sýningartíma frá einu leikári til annars geta valdið glundroða á kostnað nýrra sýninga. Elly gengur ennþá fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu en teppir Stóra sviðið á sama tíma, Kartöfluæturnar þurftu að víkja fyrir Brotum úr hjónabandi þó að ástæðurnar hafi verið annars eðlis og sumar barnasýningar ganga árum saman án mikilla breytinga. Hefðir eru stundum af hinu góða en þegar markaðsvæðingin og peningakassinn hamla nýsköpun þá er vert að rýna betur í heildarmyndina.

Úr SOL sem Sómi þjóðar sýndi í Tjarnarbíói.
Tjarnarbíó, heimili sjálfstæðu sviðslistasenunnar, hefur svolítið átt við þennan vanda, ef vinsældir skal kalla vanda, að stríða það sem af er leikárinu. Fimm sýningar á þessu hausti voru frá fyrra leikári sem er vel en gæta skal hófs. Á móti kemur að Tjarnarbíó hefur tekið að sér að vera heimili danssenunnar líka en dansarar eiga ekki í öruggt atvinnuhúsnæði að venda um þessar mundir sem er algjör skömm. Einnig var Tjarnarbíó bækistöð fyrir leikhátíðina Everybody’s Spectacular, samvinnuverkefni Reykjavík Dance Festival og Lókal. Þar mátti finna fjölbreytta dagskrá og er hátíðin mikilvægur vettvangur fyrir tilraunastarfsemi í íslenskum sviðslistum.

Verra er að segja frá því að fáar barnasýningar hafa verið frumsýndar það sem af er leikári. Eins og áður sagði var hin hugljúfa Íó frumsýnd í Tjarnarbíói en Oddur og Siggi í boði Þjóðleikhússins var frumsýnd úti á landi í takt við loforð þjóðleikhússtjóra um að sinna landsbyggðinni betur en sú sýning á eftir að skila sér á höfuðborgarsvæðið. Á nýja árinu verður Ég get frumsýnt í Þjóðleikhúsinu, Skúmaskot eftir Sölku Guðmundsdóttur í Borgarleikhúsinu og í Tjarnarbíói endursýnir Leikhópurinn Lotta Galdrakarlinn í Oz. Þetta er ákveðin afturför frá fyrri leikárum og nauðsyn að lagfæra.

Hundur í óskilum fór á kostum í Kvenfólki.
Leikfélag Akureyrar hefur átt á brattann að sækja síðan leikfélagið sameinaðist öðrum stofnunum undir hatti Menningarfélags Akureyrar. Síðustu misseri hefur enginn fastráðinn leikhópur starfað við félagið, sýningum farið fækkandi og fjárveitingar minnkað til muna. Jón Páll Eyjólfsson hefur nú sagt starfi sínu sem leikhússtjóri LA lausu en hann hefur barist við fjárskort síðan hann tók við störfum og áköll hans um frekara fjármagn fallið í grýtta jörð. Sem af er leikárinu hafa einungis tvær nýjar sýningar verið sýndar, jólasýningin fyrir börn um Stúf og hin sérlega vel heppnaða Kvenfólk þar sem dúóið Hundur í óskilum fór á kostum, ekki getur annað verið en þeir geri sér ferð suður. Framtíð LA er myrk um þessar mundir og hætta á því að atvinnuleikhús fyrir norðan leggist hreinlega af sem væru hræðileg örlög fyrir eitt elsta leikhús landsins.

Þjóðleikhúsið lokaði árinu með Hafinu í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar sem heppnaðist einkar vel. Leikritið var uppfært, þar á meðal var persónum fækkað og verkið stytt, sem var að mestu af hinu góða og snjöll lausn til að færa leikverk sem hefur elst örlítið illa inn í samtímann. Hátíðarsýning Borgarleikhússins verður nú Himnaríki og helvíti byggt á sagnabálki Jóns Kalmans Stefánssonar í leikgerð Bjarna Jónssonar. Upphaflega átti gríski harmleikurinn Medea í leikstjórn Hörpu Arnarsdóttur að verma þann stall en sýningunni var frestað fram í miðjan janúar. Hjörtur Jóhann Jónsson fyllir skarð Atla Rafns Sigurðarsonar sem var rekinn frá Borgarleikhúsinu stuttu fyrir jól og var brottreksturinn ástæða seinkunarinnar.

Í byrjun desember hélt Borgarleikhúsið viðburð þar sem nafnlausar sögur tengdar #metoo byltingunni voru lesnar upp af konum á öllum aldri. Sviðslistaheimurinn á Íslandi er lítill og persónutengsl flókin, líkt og landið sjálft, en nú er lag til að hætta að tala undir rós og takast á við þá staðreynd að kynferðisleg áreitni er staðreynd í íslenskum sviðslistum. Stóru leikhúsin hafa gefið út tilkynningar þess efnis að slík hegðun líðist ekki innan þeirra veggja og Listaháskóli Íslands hefur lofað umbótum. Nú verður að standa við þessi loforð og breyta heiminum.

Hvað næsta leikár varðar þá eru nokkrar sýningar sem áhorfendur eiga að fylgjast sérstaklega með. Þar ber helst að nefna Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu sem Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrir, ameríska verðlaunaleikritið Efi þar sem Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir snýr aftur á svið, Rocky Horror Picture Show þar sem Páll Óskar klæðir sig aftur í ham Frank-n-Furter og Svartalogn þar sem mætast þrumugóður leikhópur og tónlist Markétu Irglová. Í sjálfstæðu sviðslistasenunni snúa Óskabörn ógæfunnar aftur í samfloti með Eiríki Erni Norðdahl nú með nýtt leikverk að nafninu Hans Blær.

Úr sýningunni Íó sem var ein af allt og fáum leiksýningum fyrir börn á árinu.Mynd/Lilja Birgisdóttir
Þrátt fyrir misjafnar sýningar hefur leikárið ekki byrjað jafn vel á síðustu árum og nú. Fjölbreytni er í fyrirrúmi og ákallið um fleiri ný íslensk leikrit virðist vera að skila sér en áhorfendur verða að muna að mæta og styðja þessar sýningar. Margar sýningar hafa verið langt yfir meðaltali í gæðum þó að sumar þeirra hafi fallið flatar en jólin eru ekki á hverjum degi sem betur fer. Nú er lag að halda þessari góðu vinnu áfram og ganga galvösk í leikhúsin á komandi ári.

Gleðilegt áframhaldandi leikár!



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. desember.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×