Lífið

Völvuspáin 2018: Skrautlegt ár fram undan

#metoo klýfur stjórnmálaflokk

Við kveðjum árið 2017 í miðri #metoo byltingu. Nú þegar hafa nafntogaðir Íslendingar verið látnir taka pokann sinn vegna þessarar kröftugu byltingar. Þeir verða miklu fleiri sem þurfa loksins að taka ábyrgð á gjörðum sínum og gangast við óeðli sínu.

Þetta verða þekktir Íslendingar í mörgum stéttum og þau mál sem koma hvað mest á óvart og valda mestum usla á árinu 2018 verða úr umönnunargeiranum og stjórnmálunum. Í síðarnefndu stéttinni kemur ljótt mál upp á yfirborðið sem klýfur rótgróinn stjórnmálaflokk í herðar niður.

Hneykslismál í fitnessheiminum

#metoo byltingin hertekur fitnessheiminn þar sem hvert málið rekur annað og það mun tengjast áreitni í garð beggja kynja. Í kjölfarið kemst upp um víðtæka misnotkun vaxtarhormóna og örvandi lyfja á meðal keppenda í greininni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.Vísir/Stefán
Katrínu fatast flugið

Katrín Jakobsdóttir má hafa sig alla við að halda um stjórnartaumana, byrjunarörðugleikar í ríkisstjórnarsamstarfinu einkennast af togstreitu og margt gengur á bak við tjöldin sem rekur ekki allt á fjörur fjölmiðla.

Sigríður Andersen lendir í vandræðum með erfiðar ákvarðanir sem tengjast dómstólum og vinnulagi þeirra og mun það reyna verulega á hana í embætti dómsmálaráðherra. Háværar raddir verða innan flokksins um að skipta henni út fyrir Birgi Ármannsson sem þykir óumdeildur og farsæll í starfi sem þingmaður og því líklegur til að koma ró á málaflokkinn og sætta deiluaðila.

Kjarasamningar munu reyna til hins ýtrasta á stjórnarsamstarfið, en Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra tekst að halda skútunni á floti og koma í veg fyrir vinnumarkaðsdeilur.

Lilja Alfreðsdóttir mun láta ljósa sitt skína í lok ársins og munu vinsældir hennar hjá þjóðinni aukast verulega á kostnað Katrínar Jakobsdóttur.

Guðlaugur Þór Þórðarson tengist hneykslismáli sem kemur upp á árinu og hann á erfitt með að kjafta sig út úr. Hann söðlar um á árinu og opnar kaffihús sem er opið gæludýrum við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Alþingiskórinn slær í gegn

Inga Sæland lætur drauminn rætast og stofnar Alþingiskórinn. Þar verður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fremstur í flokki og mun lagaval og sviðsframkoma vekja eftirtekt, einnig út fyrir landsteinana. Já, Alþingiskórinn fer í kórferðalag sem verður skrásett í bak og fyrir af meðlimum kórsins. Í lok árs verður jafnvel rætt um að búa til heimildarmynd um þennan myndarlega kór.

Sjálfstæðisflokkurinn blæs til sóknar og vinnur góðan sigur í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor.Vísir/Eyþór
Titringur vegna prófkjörs

Leiðtogakjör Sjálfstæðismanna í borginni verður haldið í lok janúar. Úrslit verða óvænt, nýtt fólk stendur uppi sem sigurvegarar á meðan aðrir er töldu sig ganga að sæti sínu vísu þurfa að endurmeta stöðuna. Sjálfstæðisflokkurinn blæs til sóknar og vinnur góðan sigur í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Kosningabaráttan verður hatrömm. Flokkurinn hefur glímt við leiðtogavanda í Reykjavík lengi og eru sumir þeirrar skoðunar að endurnýta eigi Sjálfstæðismenn úr öðrum sveitarfélögum og kalla þá til verka í Reykjavík. Nafn Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðbæinga, hefur verið nefnt í þessu samhengi sem og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, fyrrverandi þingmanns, en hún starfaði eitt sinn sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Breiðfylking kvenna innan flokksins vill Unni Brá Konráðsdóttur, er datt út af þingi í síðustu kosningum, sem oddvita í Reykjavík. Þá sér völvan að leitað hefur verið til Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðis. Enda þykir hann hafa leyst verk sín hjá Reykjavíkurborg vel af hendi. Það er ljóst að baráttan um leiðtogasætið verður æsispennandi.

Fleiri slys á ferðamönnum

Lögreglan á Suðurlandi er komin að þolmörkum og mun krefjast stóraukinna fjárframlaga til að efla löggæslu enda er umdæmið víðfeðmt og löggæslan á svæðinu vandræðalega undirmönnuð. Í sama streng taka stjórnendur sjúkrahússins á Selfossi en starfsmenn þar eru að sligast undan álagi og munu krefjast aðgerða í kjölfar óvænts dauðsfalls sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir.

Aðilar ferðaþjónustu á Íslandi halda neyðarþing í haust komandi þar sem blásið verður til aðgerða­áætlunar til úrbóta í ferðaþjónustu. Víðtæk samstaða er um málið.

Snemma á árinu fær Ísland útreið sem áfangastaður í virtu tímariti um lífsstíl og ferðalög. Um mitt ár birtir til og sjónvarpsauglýsing tekin upp á Íslandi eykur enn á ferðamannaflauminn.

Enn þurfa sjúklingar að sofa á göngum og enn tekur marga daga, jafnvel vikur, að fá tíma hjá heimilislækni. Vísir/Vilhelm
Innviðir molna

Innviðir heilbrigðiskerfisins halda áfram að molna. Enn þurfa sjúklingar að sofa á göngum og enn tekur marga daga, jafnvel vikur, að fá tíma hjá heimilislækni. Mikil veikindi munu herja á starfsfólk Landspítala sem eiga rætur sínar að rekja til vinnuálags og myglu í húsnæði. Ástandið verður óþolandi og mun mannekla valda verulegum vandræðum í starfsemi sjúkrahússins.

Viðbrögð Birgis Jakobssonar landlæknis við slæmu ástandi á sjúkrahúsinu veldur mikilli reiði á meðal heilbrigðisstarfsmanna. Háværar raddir krefjast úrbóta og þess að nýr landlæknir taki við keflinu og er þar Tómas Guðbjartsson, Lækna-Tómas, nefndur til sögunnar.

Hamingjustuðullinn hækkar

Íslendingar verða óviðræðuhæfir vegna HM-vímu í júní, gleðivísitalan mun margfaldast og heimurinn mun halda með litla Íslandi. Landsliðinu mun vegna vel og standast allar væntingar en kemst ekki í úrslit. Orðið húh verður viðurkennt inn í Orðabók menningarsjóðs sem réttmæt upphrópun.

Glæst för til Rússlands

Þótt við Íslendingar endum ekki á verðlaunapalli á HM ná strákarnir okkar enn og aftur að blása þjóðernisástinni okkur í brjóst. Rússlandsförin verður þó ekki aðeins dans á rósum og sér völvan mikil slagsmál brjótast út á meðal áhangenda þar sem margir slasast, ekki síst vegna aðkomu rússnesku lögreglunnar.

Við kynnumst glænýrri frjálsíþróttastjörnu á árinu. Ungri stúlku sem hefur æft íþróttir allt sitt líf með góðum árangri en enginn veitt henni athygli fyrr en nú. Þessi stúlka skipar sér í fremstu röð meðal íþróttamanna heimsins og á eftir að verða nafn sem hvert mannsbarn þekkir innan nokkurra ára.

Svo sér völvan þekktan, íslenskan íþróttamann landa stórum auglýsingasamningi við heimsþekkt íþróttafyrirtæki. Það væri helst Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem vakti athygli fyrir fríðleika á EM og var þá strax orðaður við fyrirsætustörf.

Spandexið inn í skáp

Á árinu 2018 mun sous vide-æðið renna sitt skeið á enda. Landsmenn munu einnig leggja reiðhjólum sínum og spandexgöllunum. Nýtt og óvænt æði mun heltaka þjóðina áður en að haustið gengur í garð sem felur í sér framandi tegund smájurta sem fólk ræktar af alúð á heimilum sínum.

Guðni Th. Jóhannesson slær alvarlega feilnótu í fatavali við opinbera athöfn á erlendri grundu.Vísir/Anton
Bæ, bæ, Snapchat-stjörnur

Frægðarsól ungra samfélagsmiðlastjarna lækkar, sérstaklega með tilkomu nýrra reglna um duldar auglýsingar. Þá nær eldri borgari góðum tökum á samfélagsmiðlinum Snapchat og veltir öðrum stjörnum rækilega úr sessi. Íslendingar verða meðvitaðri um þann gerviheim sem sumar þessara stjarna lifa í og nenna ekki að taka þátt í honum. Táknum verður í auknum mæli skipt út fyrir samræður, tístum fyrir símtöl á milli fólks.

Brúðkaup komast í tísku

Íslendingar munu æða upp að altarinu og verður ágústmánuður vinsæll meðal brúðhjóna. Uppáhaldsdagsetningin til að ganga í hjónaband verður laugardagurinn 18. ágúst, 18.08.18.

Forsetinn feilar

Guðni Th. Jóhannesson slær alvarlega feilnótu í fatavali við opinbera athöfn á erlendri grundu. Íslenskir tískuráðgjafar með Svavar Örn og Karl Berndsen fremsta í flokki bjóðast til að dressa forsetann upp og veita honum persónulega tískuráðgjöf, honum að kostnaðarlausu.

Þær finna ástina

Sigríður Klingenberg, spádrottningin sjálf, eignast erlendan kærasta sem hún hittir fyrir tilviljun á kaffihúsinu á Álftanesi.

Ellý Ármanns verður komin með nýjan herra upp á arminn fyrir lok febrúar, en það verður tattúlaus ást.

Linda Pétursdóttir ákveður að elta draumaprinsinn til Bandaríkjanna og sest að til frambúðar á stóru kúabúi í Suðurríkjunum.

Manuelu Ósk verður loksins boðið á stefnumót og það ekki bara eitt heldur fjölmörg.

Eldgos á óvæntum stað

Árið byrjar með hæglætisveðri en í mars geisar fordæmalaust mannskaðaveður. Og já, það mun gjósa. Eldgos verður er sumar nálgast, þó ekki þar sem fólk býst helst við. Þetta eldgos verður samt sem betur fer ekki það stórt að það setji allt úr skorðum.

Nýtt upphaf Stöðvar 2

Það verða miklar sviptingar á fjölmiðlamarkaði árið 2018. Tveir vefmiðlar berjast hart um hylli fólks. Annar þeirra rótgróinn en stórlega endurbættur en hinn alveg glænýr. Annar þessara vefmiðla heldur velli og verður mest lesni vefmiðill á Íslandi. Hinn dalar og skellir í lás fyrir næstu áramót.

Stöð 2 skiptir um gír og mannabreytingar verða á stöðinni. Einhverjir verða látnir víkja til að rýma fyrir nýju fólki sem á eftir að gefa stöðinni eins konar nýtt upphaf. Stöð 2 eflir einnig framleiðsluteymi sitt og verða gerðar tvær nýjar þáttaraðir á árinu sem eiga eftir að fara víða.

Á Sjónvarpi Símans verður skipt um sjónvarpsstjóra á árinu sem boðar nýjar áherslur og bjartari tíma á stöðinni.

Páll Óskar Hjálmtýsson.Vísir/Anton
Íslendingur með Hollywoodstjörnum

Leikarinn Darri Ingólfsson, sem margir eru kannski búnir að gleyma, landar aðalhlutverki í stórri Hollywood-mynd með þekktum stórstjörnum í bransanum.

Páll Óskar Hjálmtýsson snýr aftur á svið í Rocky Horror og hlýtur einróma lof gagnrýnenda. Þetta á eftir að leiða af sér fleiri hlutverk fyrir Pál Óskar og sér völvan hann blómstra í dramatísku hlutverki í sjónvarpi.

Elma Stefanía Ágústsdóttir snýr aftur eftir barneignarorlof og sigrar leiklistarheiminn í öflugu stykki sem tryggir henni hinar ýmsu tilnefningar. Þá fær hún einnig aðalhlutverk í nýrri íslenskri stórmynd, sem leikstýrt verður af óþekktum leikstjóra.

Þá fer lítið fyrir Baltasar Kormáki hér á landi þetta árið en hann situr þó ekki auðum höndum heldur vinnur bak við tjöldin að undirbúningi fyrir stærsta verkefni sem hann hefur komið að til þessa. Björk Guðmundsdóttir verður undir feldi, hún mun sinna andlegum málum á árinu og leita að jafnvægi í lífinu.

Nýtt gríntvíeyki, karl og kona, hefur ferilinn á vefmiðli á Íslandi og slær rækilega í gegn. Þetta byrjar sem saklaust og stutt grín en í lok árs verður þetta tvíeyki meðal valdamestu Íslendinga í heimi fjölmiðla.

Íslenskt tónlistarlíf tekur breytingum

Ruth Regínalds Moore gefur út nýtt lag og reynir aftur fyrir sér á íslenskum tónlistarmarkaði. Hið sama reynir stórstjarnan Leoncie en hún sendir frá sér nýjan smell um íslenska fótboltalandsliðið sem slær í gegn hjá þjóðinni.

Íslensku ungrappararnir JóiPé og Króli og Herra Hnetusmjör fara í samstarf og senda frá sér smell sem mun vekja athygli út fyrir landsteinana, sérstaklega í Færeyjum.

Sigrum hjörtu í Eurovision

Árið 2018 er árið sem að við ætlum að vinna evrópsku söngvakeppnina – aftur. Í þetta sinn kemur framlag Íslendinga úr óvæntri átt. Gamalkunn stjarna stígur á svið, nú sem hún sjálf, Ágústa Eva Erlendsdóttir, en ekki sem Silvía Nótt. Ágústa Eva og Gunnar Hilmarsson úr hljómsveitinni Sycamore Tree vinna hug og hjörtu þjóðarinnar og Evrópu með einlægu og einföldu lagi sem mun fá mikla spilun á erlendum útvarpsstöðvum.

Ládeyða i Þjóðleikhúsinu

Þjóðleikhúsið nær ekki að skáka Borgarleikhúsinu í vinsældum. Leikritaval þess verður harðlega gagnrýnt og hitna fer undir stól leikhússtjóra. Völvan sér glitta í Gísla Örn Garðarsson sem þjóðleikhússtjóra í framtíðinni.

Aðeins minna vá hjá WOW

Skúli Mogensen tefldi djarft á árinu 2017 og mun súpa seyðið af því árið 2018. Erfiðleikar verða í rekstrinum vegna offjárfestinga og harðnandi samkeppni frá erlendum flugfélögum sem ætla sér stóra hluti á flugleiðinni á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Stórtíðinda er að vænta í einkalífi Skúla, völvan spáir barni og brúðkaupi í lok ársins 2018.



Það verða miklar sviptingar í viðskiptalífinu og stokkað upp víða.Vísir/Eyþór
Fjárhagslegt högg

Það verða miklar sviptingar í viðskiptalífinu og stokkað upp víða. Til að mynda hjá Arion banka þar sem skipt verður um marga af æðstu stjórnendum bankans. Fjárfesting í kísilveri United Silicon og níðþungt fjárhagslegt högg sem bankinn þurfti að taka á sig vegna vandræða United Silicon spila þar stóra rullu.

Deila Róberts Wessmann við Björn Inga Hrafnsson athafnamann nær hámarki þegar tekur að vora.

Jón Gerald Sullenberger verður undir feldi fyrripart árs en þegar tekur að hausta snýr hann aftur á sjónarsviðið með nýtt fyrirtæki í samgöngugeiranum sem verður afar umdeilt.

Kona verður ráðin í æðstu stöðu hjá einu af fyrirtækjunum sem skráð eru í Kauphöllinni. Þetta er tiltölulega ung kona sem hefur starfað mikið erlendis. Hún á eftir að verða mörgum innblástur.

Enginn verður óbarinn biskup

Vaxandi ólga verður innan kirkjunnar vegna embættisverka Agnesar M. Sigurðardóttur biskups. Mikill þrýstingur verður á Agnesi að segja af sér. Fjöldi þeirra sem segja sig úr þjóðkirkjunni nær hámarki. Til tíðinda dregur með haustinu, nýr biskup tekur við, eldri prestur sem hefur nú þegar lagt hempuna á hilluna.

Umræðan gegn byggingu mosku á Íslandi nær flugi í vor en hrapar svo harkalega til jarðar þegar aðstandendur Útvarps Sögu taka upp hanskann fyrir sýrlenska fjölskyldu sem þráir það heitast að geta stundað trú sína í mosku í nýju heimalandi, Íslandi.

Nóróveirusýking á kirkjuþingi

Á framhaldsfundi kirkjuþings í Vídalínskirkju í mars kemur upp skæð nóróveirusýking. Tugir presta og embættismanna kirkjunnar eru fluttir í einangrun í safnaðarheimili og grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Björgunarsveitir standa vaktina og systurkirkjur íslensku þjóðkirkjunnar á Norðurlöndum standa fyrir fjölmennum bænastundum. Sýkingin er að lokum rakin til smábrauða með sardínum í majónesi sem verða á boðstólum á kirkjuþingi. Þekktur matreiðslumeistari lokar fyrirtæki sínu og kaupir gúmmíplantekru í Suðaustur-Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×