Götustíllinn á árinu 2017

30. desember 2017
skrifar

Að fylgjast með götustílnum gefur manni góða mynd um hvað er vinsælt í heimi tískunnar, sérstaklega á fólkinu sem sækir tískuvikurnar. Hér tökum við Glamour saman götustílinn og trendin sem voru hvað mest áberandi á árinu sem er að líða.
 


Dökkt gallaefni
Gallaefni var mjög áberandi á árinu og snið á gallabuxunum breyttist úr því að vera þröngt og teygjanlegt, yfir í að vera beint, upphátt og efnið frekar stíft. Nú er hins vegar tíminn fyrir dökkt gallaefni eins og við sáum mikið af frá tískuvikunum. Þetta verður enn vinsælla á næsta ári. 

 


Gucci
Það er auðvelt að segja að Gucci hafi stolið senunni hvað eftir annað á árinu. Strigaskórnir, mokkasíurnar, töskurnar og stuttermabolir frá Gucci voru hvað mest áberandi frá merkinu og það verður forvitnilegt að sjá hvort æðið haldi áfram, eða hvort eitthvað annað merki taki við? 

 


Lakk
Svart lakk, vinyl og leður er komið til að vera, og ef þú átt ekki þannig flík í fataskápnum þá er gott að tryggja sér hana sem fyrst. Lakkbuxur, kápur og jakkar var mjög vinsælt á árinu sem er að líða og mun halda áfram á næsta ári.

 


Köflóttur jakki
Köflóttur jakki er klassísk flík, og þetta árið átti hann heima í ansi mörgum fataskápum. Hvort sem það voru köflóttar buxur eða pils í stíl, eða bara stuttermabolur og gallabuxur, þá er víst að köflótti jakkinn var ein af vinsælustu flíkum ársins.

 


Sokkastígvél
Þetta trend var eitt sem kom á óvart, og eru þetta einhverskonar sokkar með hæl. Demna Gvasalia, hönnuður Vetements og Balenciaga var með þeim fyrstu að kynna þessa skó til leiks, og urðu þau strax gríðarlega vinsæl, sérstaklega þau blómamunstruðu. Önnur tískuhús og ódýrari fatamerki voru fljót að koma með sínar eigin útgáfur, sem gerði mörgum tískuunnendum kleift að eignast svona skó.