Innlent

Gærdagurinn sá kaldasti á árinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig í gær.
Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig í gær. Vísir/Anton

Dagurinn í gær var sá kaldasti á árinu á landinu í heild og mældist kuldinn mestur í Svartárkoti eða -29,0 stig. Þetta kemur fram á bloggsíðu veðurfræðingsins Trausta Jónssonar sem segir frostið á Svartárkoti vera það mesta sem hafi mælst á landinu frá 6. desember 2013 þegar frostið við Mývatn var -31,0 stig.

Mesta frost sem vitað er um í desember mældist í Möðrudal þann 9. árið 1917 ,samkvæmt Trausta. Þá mældist frostið -34,5 stig.

Hann segir meðalhita í byggðum landsins hafa verið -8,2 stig í gær og sé einungis vitað um 90 kaldari desemberdaga frá og með 1949. Það samsvari rúmlega einn dag á ári að meðaltali en þeir séu ekki nema sjö á þessari öld.

„Frostið í Svartárkoti í dag er það mesta sem vitað er um á landinu 29. desember og er því svokallað landsdægurlágmark. Þetta er fyrsta byggðarlágmarksmet sem sett er á árinu, en annað í röð landsdægurmeta á landinu í heild - fjöldinn talsvert undir almennum væntingum. Til samanburðar má geta þess að hámarksdægurmetin eru orðin 12 á árinu (óstaðfestur fjöldi) - fjöldi talsvert ofan væntinga,“ skrifar Trausti.

„Mikill fjöldi dægurmeta féll á einstökum stöðvum, t.d. hefur ekki mælst meira frost þann 29. desember á Bergstöðum í Skagafirði og á Sauðanesvita.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.