Erlent

Kusu Mikka mús, Jesú og „hvaða repúblikana sem er“ frekar en Roy Moore

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Roy Moore var með forskot í skoðanakönnununum áður en hann var sakaður um að hafa áreitt og elst við unglingsstúlkur og ungar konur þegar hann var á fertugsaldri.
Roy Moore var með forskot í skoðanakönnununum áður en hann var sakaður um að hafa áreitt og elst við unglingsstúlkur og ungar konur þegar hann var á fertugsaldri. Vísir/afp
Mikki mús, Jesús, Ronald Reagan og „hvaða Rebúblikani sem er“ annar en Roy Moore, voru á meðal þeirra sem hlutu atkvæði í kosningunum í Alabama til öldungardeildar Bandaríkjaþings fyrr í mánuðinum. Þá hlaut Sassy, hesturinn sem Moore reið á kjörstað, einnig atkvæði.

Mikill fjöldi svokallaðra „write in“-atkvæða, þar sem nafn einstaklings sem ekki er skráð á kjörseðlinum er ritað, barst í þingkosningunum í Alabama, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Næstum 23 þúsund slík atkvæði voru greidd í kosningunum en um 22 þúsund atkvæðum munaði á frambjóðendunum tveimur, repúblikananum Roy Moore og demókratanum Doug Jones. Því er ljóst að téð atkvæði höfðu mikil áhrif á úrslit kosninganna.

Sjá einnig: „Þú getur endurtekið ásakanir í sífellu en það gerir þær ekki sannar“

Moore var með forskot í skoðanakönnununum áður en hann var sakaður um að hafa áreitt og elst við unglingsstúlkur og ungar konur þegar hann var saksóknari á fertugsaldri. Moore er rúmlega sjötugur. Leigh Corfman, ein kvennanna sem hafa sakað Moore um ósæmilega kynferðislega hegðun, hlaut eitt atkvæði í kosningunum. Af þeim sem ekki voru í framboði hlaut þingmaðurinn Luther Strange, sem beið í lægra haldi fyrir Moore í forkosningu repúblikanaflokksins, flest atkvæði.

Moore höfðaði auk þess mál á dögunum til að reyna að koma í veg fyrir embættistöku Jones. Kjör Jones hefur þó verið staðfest þrátt fyrir mótbárur Moore.


Tengdar fréttir

Trump lýsir yfir stuðningi við Moore

Fjöldi kvenna hafa á síðustu vikum sakað frambjóðanda Repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Alabama um að hafa áreitt þær kynferðislega á áttunda áratugnum.

Moore játar ekki ósigur

Roy Moore, frambjóðandi Repúblikana í Alabama til öldungadeildar Bandaríkjaþings, laut í lægra haldi fyrir Demókratanum Doug Jones þegar talið var upp úr kjörkössunum í fyrrinótt.

Moore segir Bandaríkjamenn hafa hafnað guði

Frambjóðandi repúblikana í Alabama neitar enn að viðurkenna ósigur í kosningunum og bölsótast út í samkynhneigð og fóstureyðingar í myndbandsávarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×