Erlent

Vonarstjarna Black Lives Matter-hreyfingarinnar er látin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Erica Garner var 27 ára þegar hún lést.
Erica Garner var 27 ára þegar hún lést. Vísir/afp
Erica Garner, dóttir manns hvers andlát varð ein kveikjan að Black Lives Matter-hreyfingunni í Bandaríkjunum, lést í dag 27 ára að aldri. Garner þjáðist af astma, eins og faðir hennar, en astmakast er talið hafa hrint af stað hjartaáfalli sem varð henni að bana.

Tilkynnt var um andlát Ericu á Twitter-reikningi hennar, sem er nú í umsjá fjölskyldumeðlima, en hún fékk hjartaáfall þann 23. desember síðastliðinn og hafði verið í dái síðan þá. Hún komst aldrei til meðvitundar.

Erica helgaði líf sitt baráttu fyrir réttindum þeldökkra Bandaríkjamanna í kjölfar andláts föður hennar, Erics Garner. Hann lést eftir að lögreglumaður tók hann kverkataki á götum New York-borgar árið 2014.

„Það sem hún hefði viljað að við gerðum í minningu hennar er að halda áfram að berjast fyrir réttlæti, og að halda áfram að berjast fyrir fjölskyldur,“ sagði mannréttindafrömuðurinn Al Sharpton um dauða Ericu. Sharpton gerðist sérlegur ráðgjafi fjölskyldu Erics í kjölfar dauða hans og minntist Ericu í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í dag.

Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að Erica hafi verið tveggja barna móðir. Hún eignaðist son í ágúst síðastliðnum og skírði hann í höfuðið á föður sínum, Eric.



Eric Garner lést eftir að lögreglumaður tók hann kverkataki á götum New York. Verknaðurinn náðist á myndband.Vísir/Skjáskot
„Ég get ekki andað“

Erica skipaði sér í framvarðarsveit Black Lives Matter-hreyfingarinnar (BLM) sem hefur tröllriðið Bandaríkjunum um nokkurt skeið. BLM er hreyfing pólitískra aðgerðasinna úr samfélagi Bandaríkjamanna af afrískum uppruna sem berjast gegn ofbeldi og kerfisbundnum rasisma gegn svörtum þar í landi. Fjölmörg mótmæli hafa verið skipulögð á vegum hreyfingarinnar og þá hafa aðstandendur hennar notast við samfélagsmiðla og myllumerkið #BlackLivesMatter til að koma boðskap sínum á framfæri.

Erica vakti sérstaklega athygli fyrir að klæðast bolum með áletruninni „Ég get ekki andað [e. I can‘t breathe] við fjölmörg tilefni og vísaði þar í hinstu orð föður síns. Eric þrábað lögregluþjóninn, sem hélt hann hálstaki, um að sleppa sér áður en hann lést. „Ég get ekki andað,“ sagði hann ítrekað en Eric var astmaveikur. Verknaðurinn náðist á myndband og fór eins og eldur í sinu um internetið.

Umræddur hvítur lögreglumaður var ekki ákærður fyrir manndráp og vakti afstaða saksóknara og lögreglu hörð viðbrögð. Mótmælt var í flestum stórborgum Bandaríkjanna vegna málsins en hér að neðan má sjá umfjöllun NBC-sjónvarpsstöðvarinnar um andlát Erics.


Tengdar fréttir

Pólitík og poppkúltúr

Upphaflega var Black Lives Matter kassamerki (e. hashtag) en hefur breyst í alþjóðlega hreyfingu. Margir frægir einstaklingar af öllum kynþáttum hafa tekið þátt og hefur hún verið áberandi á stærstu sviðum heimsins eins og Super Bowl og Grammy-verðlaununum.

Rannsókn hafin á dauða Eric Garner í New York

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á dauða Eric Garner, svarts manns sem hvítur lögreglumaður í New York tók hálstaki þannig að Garner lést. Eric Holder dómsmálaráðherra tilkynnti þetta í gærkvöldi eftir að kviðdómur í New York ákvað að ákæra lögreglumanninn ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×