Erlent

Vara við frekari mótmælum

Samúel Karl Ólason skrifar
Atvinnuleysi er töluvert hátt meðal ungs fólks í dreifbýli og þau eru talin vera stærsti hópur mótmælendanna.
Atvinnuleysi er töluvert hátt meðal ungs fólks í dreifbýli og þau eru talin vera stærsti hópur mótmælendanna. Vísir/AFP
Yfirvöld í Íran hafa varað við að mótmælendur muni gjalda fyrir mótmæli sín ef þau haldi áfram. Undanfarna þrjá daga hafa umfangsmikil mótmæli gegn yfirvöldum farið fram víða um landið og er talið að þetta séu stærstu mótmælin í landinu frá árinu 2009. Tveir mótmælendur eru látnir.

Mótmælin byrjuðu vegna hás verðlags í Íran og hafa undið upp á sig á síðustu dögum. Í gær náðu þau fyrst til Teheran, höfuðborgar Íran. Þá hafa myndbönd sýnt mótmælendur ráðast á opinberar byggingar og valda þar skemmdum.

Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur ekki tjáð sig um mótmælin enn. Íranar segja að myndbönd af mótmælunum hafi verið birt í Sádi-Arabíu og í Evrópu.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar virðast mótmælin vera knúin áfram af fátækari Írönum sem finni fyrir verulegum vandræðum vegna efnahagsvandræða Íran og eru reiðir yfir spillingu. Atvinnuleysi er töluvert hátt meðal ungs fólks í dreifbýli og þau eru talin vera stærsti hópur mótmælendanna. Það hefur farið versnandi og verðbólga hefur sömuleiðis verið há og einnig hafa mótmælendur gagnrýnt ætlaða spillingu embættis- og stjórnmálamanna í Íran og útgjöld íranska ríkisins vegna hernaðarátaka í Sýrlandi og Íran.

Opinber mótmæli gegn stjórnvöldum Íran eru mjög sjaldgæf þar sem valdsvið öryggissveita er umfangsmikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×