Innlent

Telur alvarlegt að ráðherrann brjóti lög

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sigríður Á. Andersen kveðst standa með ákvörðun sinni og er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar.
Sigríður Á. Andersen kveðst standa með ákvörðun sinni og er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar. vísir/ernir

„Niðurstaðan er fengin, hún er skýr og afdráttarlaus. Dómsmálaráðherra braut gegn lögum,“ segir Jóhannes Rúnar Jóhannsson, umsækjandi um dómarastöðu í Landsrétti. Hæstiréttur dæmdi honum og Ástráði Haraldssyni hvorum 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ákvörðunar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að sniðganga þá við skipan dómara. Hæstiréttur telur málsmeðferð ráðherra hafa brotið gegn 10. grein stjórnsýslulaga.

Jóhannes og Ástráður voru meðal 33 umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra fimmtán sem dómnefnd mat hæfasta. Ráðherra gerði hins vegar fjórar breytingar á lista nefndarinnar og sniðgekk þannig meðal annarra Jóhannes og Ástráð sem stefndu ríkinu. Kröfðust þeir ógildingar á ákvörðun ráðherra, viðurkenningar á skaðabótaskyldu og miskabóta.

Hæstiréttur hafði áður vísað frá dómi aðalkröfum þeirra um ógildingu þannig að eftir stóðu kröfur þeirra um bótaskyldu og miskabætur. Hæstiréttur taldi Jóhannes Rúnar og Ástráð ekki hafa lagt fram fullnægjandi gögn til sönnunar því að þeir hefðu orðið fyrir tjóni vegna ákvörðunar ráðherra og var viðurkenningarkröfu þeirra hafnað.

Hins vegar var fallist á miskabótakröfur þeirra og þeim dæmdar 700 þúsund krónur í bætur. Hæstiréttur telur að Sigríði hafi mátt vera ljóst að gjörðir hennar gætu bitnað á orðspori mannanna og orðið þeim að meini.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Fréttablaðið/GVA

Íslenska ríkið þarf líka að greiða málskostnað tvímenninganna sem nam einni milljón króna hjá hvorum.

Jóhannes kveðst sáttur við niðurstöðuna.

„Það hlýtur að vera alvarlegt þegar dómsmálaráðherra brýtur lög með þessum hætti í jafnmikilvægu máli. Það er sérstaklega tekið fram í dómnum að embættið heyrir ekki undir boðvald ráðherrans og því ástæða til að fara enn varlegar en ella.“

Jóhannes segir málið aldrei hafa snúist um peninga heldur að fá efnislega umfjöllun dómstóla um málsmeðferð og ákvörðun ráðherra og Alþingis.

Sigríður kveðst fegin að málinu sé nú lokið áður en Landsréttur tekur til starfa. Hún mun bregðast við niðurstöðunni með því að setja reglur innan ráðuneytisins sem taka á því þegar ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi aðrar tillögur en þær sem hæfisnefnd leggur til við skipun dómara, líkt og honum er heimilt að gera samkvæmt lögum.

„Það mun ekki breytast. Þetta kallar hins vegar á endurskoðun á fyrirkomulaginu við skipan dómara.“

Sigríður kveðst ósammála dómnum um að hún hafi brotið stjórnsýslulög.

„Mér er fullkunnugt um reglur stjórnsýsluréttarins. En ég ætla ekki að deila við dómarana. Þetta kallar á breyttar reglur, breytta framkvæmd og  er sjálfsagt að bregðast þannig við þessari niðurstöðu. Ég er ekki fyrsti ráðherrann og örugglega ekki síðasti sem er aðili að máli þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að reglur hafi verið brotnar. Ég stend með þessari ákvörðun minni alveg eins og Alþingi hefur gert og hefur verið staðfest af Hæstarétti sem vísaði frá kröfu um ógildingu á þessari skipun. Það stendur.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×