Innlent

Skákheimurinn dolfallinn eftir vaska framgöngu Alpha Zero

Baldur Guðmundsson skrifar
Björn hefur rýnt í skákir Alpha Zero og hrifist af, sérstaklega af  hinum stórfenglega 21. Bg5!! sem sést á stöðumyndinni.
Björn hefur rýnt í skákir Alpha Zero og hrifist af, sérstaklega af hinum stórfenglega 21. Bg5!! sem sést á stöðumyndinni. vísir/anton brink
„Út frá sjónarhorni mínu sem skákmaður þá er þetta einhver ótrúlegasti viðburður sem ég hef séð í skáksögunni,“ segir alþjóðlegi skákmeistarinn Björn Þorfinnsson um skákforrit Google, Alpha Zero. Segja má að forritið hafi pakkað saman einu öflugasta skákforriti heims, Stockfish 8. Forritunum var att saman í 100 skákum, þar sem Stockfish vann ekki eina einustu skák. Alpha Zero vann 28 skákir en 72 lyktaði með jafntefli.

Björn segir að viðburðurinn sé á allra vörum í skákheiminum, bæði hérlendis og ytra. Hann segir að þetta hafi komið mönnum í opna skjöldu en 5. desember birti Google, án fyrirvara, skýrslu um Alpha Zero, þar sem einvígi þessara véla var krufið. „Þetta er dagurinn sem allt breytist,“ segir Björn og hlær.

Það magnaðasta við AlphaZero er að forritið er sjálfnuma. Skaparar þess kenndu því mannganginn en afganginn lærði það með að tefla við sjálft sig.

Að sögn Björns reiknar Stockfish út 70 milljón niðurstöður á sekúndu en Alpha Zero „ekki nema“ 80 þúsund á sama tíma. Munurinn sé hins vegar sá að Stockfish eyði tíma í að reikna út niðurstöður allra leikja, líka þeirra sem engu skili. „Þegar ég tefli fæ ég hugmyndir um þrjá til fjóra leiki og reyni svo að velja þann sem leiðir til bestu niðurstöðunnar. Alpha Zero beitir svipaðri aðferðafræði og eyðir bara kröftum sínum í það sem máli skiptir. Aðferðin er í senn skilvirkari og mannlegri,“ segir hann en bætir við að forritið finni inn á milli leiki sem stórmeistara myndi aldrei detta í hug.

Dæmi um slíkan leik sé að finna í fimmtu skákinni milli tölvuforritanna þar sem Alpha Zero leiki biskupi beint í dauðann í leik númer 21. „Þar er um að ræða stöðu sem sterkustu tölvur hafa verið látnar reikna út. Þær skilja ekki leikinn. Ekki nokkrum lifandi manni myndi detta í hug að tefla á þennan hátt,“ segir Björn. Smám saman leiði skákin þó hugsunina að baki leiknum í ljós. Hann segir að einhver hafi komist þannig að orði að Alpha Zero léki eins og geimvera.

Um hríð hefur skákheimurinn að sögn Björns litið svo á að ákveðinni fullkomnun hafi verið náð á sviði skákforrita. Geta forritanna hafi nánast verið stöðnuð og enginn hafi séð fyrir sér að bylting gæti átt sér stað. „Þetta eru glæsilegar skákir. Menn héldu að það væri ekki hægt að vinna tölvu svona. Venjulega, ef þú missir peð gegn ofurtölvu, þá geturðu nánast bókað tap. En Alpha Zero vinnur með því að fórna peðum og jafnvel riddurum og biskupum miskunnarlaust. Rauði þráðurinn er sá að AlpaZero reynir að hefta virkni manna andstæðingsins og tekst það yfirleitt á ótrúlegan hátt,“ útskýrir Björn. Það sé því miklu skemmtilegra að fylgjast með Alpa Zero tefla en hefðbundnum skákforritum. „Það eru allir alveg dolfallnir yfir þessu.“

Skákin hefur að sögn Björns lengi verið prófsteinn á gervigreind. Um skák gildi fastmótaðar reglur en mannlegt innsæi þurfi til að ná árangri. Þess vegna hafi skákin lengi verið „hið heilaga gral í gervigreind“. Hann segir að í kjölfar þessarar uppgötvunar séu menn farnir að spá því að tæknina megi nota til þess að leysa mikilvægari mál, til dæmis uppgötva nýjar stjörnur eða leita að lækningum við sjúkdómum.

Björn tekur undir þau sjónarmið sem heyrst hafa að Google hafi sennilega engan áhuga á að búa til skákforrit heldur noti skákina til þess að hrifsa til sín frumkvæðið í gervigreindarkapphlaupi stórfyrirtækja. Hann segir það hins vegar ekki draga úr gildi þessa einvígis, sem skákheimurinn allur hafi hrifist af. „Maður er búinn að dást að afrekum Magnúsar Carlsen [ríkjandi heimsmeistara í skák, innsk. blm.] í rúman áratug en þetta óvænta útspil Google er eiginlega stærra en það.“ Aðspurður hvernig Carlsen myndi farnast gegn Alpha Zero þá er svarið afdráttarlaust: „Alpha Zero myndi rústa Magnúsi Carlsen, líklega 100-0.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×