Erlent

Trump hótar ríkjum sem þiggja þróunaraðstoð frá Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hjólaði í ríki sem taka við fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum en ætla að greiða atkvæði gegn þeim í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun.
Trump hjólaði í ríki sem taka við fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum en ætla að greiða atkvæði gegn þeim í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun. Vísir/AFP
Kjósi aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gegn Bandaríkjunum í atkvæðagreiðslu í allsherjarþingi þeirra á morgun eiga þau á hættu að missa þróunaraðstoð frá bandarískum stjórnvöldum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði þessu í tengslum við atkvæðagreiðslu um stöðu Jerúsalem sem verður haldin á morgun.

Ákvörðun Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels hefur vakið miklar deilur. Egyptar lögðu fram tillögu í öryggisráði SÞ á mánudag um að ákvörðunin yrði afturkölluð. Í henni voru Bandaríkin þó ekki sérstaklega nefnd á nafn. Fjórtán af fimmtán ríkjum sem eiga sæti í ráðinu samþykktu tillöguna en Bandaríkin beittu neitunarvaldi.

Boðað hefur verið til sérstaks aukafundar í allsherjarþinginu að beiðni araba- og múslimaríkja. Þar stendur til að greiða atkvæði um sambærilega tillögu.

Nikki Haley, sendifulltrúi Bandaríkjanna við SÞ, sagði í dag að Trump hefði skipað henni að fylgjast með hvernig ríkin greiða atkvæði á morgun.  Hún sendi íslenskum stjórnvöldum bréf þessa efnis í dag. Helstu bandalagsríki Bandaríkjanna hafa fengið sambærilegt bréf, að því er kom fram í frétt Vísis í dag.

Trump hefur nú sjálfur hótað aðildarríkjum SÞ með því að hætta að veita þeim fjárstuðning.

„Þau taka við hundruð milljónum dollara og jafnvel milljörðum dollara og svo greiða þau atkvæði gegn okkur. Við fylgjumst með þessum atkvæðum. Leyfum þeim að greiða atkvæði gegn okkur. Við munum spara mikið. Okkur er sama,“ sagði Trump við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag.

Í frétt Reuters kemur fram að svo opinskáar hótanir séu sjaldgæfar í allsherjarþinginu. Nokkrir erindrekar hafi sagt að hótanir Bandaríkjastjórnar væru ólíklegar til að hafa áhrif á mörg ríki.


Tengdar fréttir

Trump fylgist með atkvæði Íslands

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum segir að Bandaríkjaforseti ætli sér að fylgjast grannt með því hvaða lönd greiði atkvæði gegn Bandaríkjunum á allsherjarþinginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×