Innlent

Hótanir Trump hafa ekki áhrif á afstöðu Íslendinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að íslensk stjórnvöld vinni með Norðurlöndunum og fleiri ríkjum í tengslum við atkvæðagreiðsluna á morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að íslensk stjórnvöld vinni með Norðurlöndunum og fleiri ríkjum í tengslum við atkvæðagreiðsluna á morgun. Vísir/Vilhelm
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að bréf bandarískra stjórnvalda um að þau muni fylgjast með hvernig ríki greiða atkvæði í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun muni ekki hafa nein áhrif á afstöðu Íslands. Hann telur framferði Bandaríkjastjórnar óvenjulegt.

Greidd verða atkvæði um tillögu um að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraela verði dregin til baka á sérstökum aukafundi allsherjarþingsins á morgun.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, sendi íslenskum stjórnvöldum bréf í dag þar sem kom fram að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni fylgjast grannt með því hvaða lönd greiða atkvæði gegn honum í allsherjarþinginu á morgun. Helstu bandalagsríki Bandaríkjanna hafa fengið sambærilegt bréf.

„Þetta bréf fastafulltrúans er óvenjulegt. Það hefur ekki áhrif á afstöðu Íslands,“ segir Guðlaugur Þór við Vísi.

Íslensk stjórnvöld vinni með stjórnvöld á Norðurlöndunum og fleiri að málinu. Afstaða Íslands muni liggja fyrir þegar greidd verða atkvæði um tillöguna kl. 15 að íslenskum tíma á morgun.

Blandi ekki saman atkvæðagreiðslunni og fjárhagsaðstoð

Trump hótaði því í dag að draga til baka fjárstuðning við ríki ef þau greiða atkvæði gegn Bandaríkjunum á morgun.

Guðlaugur Þór segist ekki vita hvað þar býr nákvæmlega að baki.

„Ég tel að það sé óskynsamlegt og að það sé ekki rétt að blanda þessum málum saman,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Trump fylgist með atkvæði Íslands

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum segir að Bandaríkjaforseti ætli sér að fylgjast grannt með því hvaða lönd greiði atkvæði gegn Bandaríkjunum á allsherjarþinginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×