Viðskipti innlent

Telja Fjarskipti undirverðlögð

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta. Vísir/GVA
Hagfræðideild Landsbankans telur að hlutabréf Fjarskipta séu undirverðlögð og ráðleggur fjárfestum að kaupa bréf í félaginu. Samkvæmt nýju verðmati hagfræðideildarinnar, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er gengi hlutabréfa félagsins metið á 75 krónur á hlut sem er ríflega 15 prósent yfir skráðu gengi félagsins eftir lokun markaða í gær.

Um er að ræða fyrsta verðmat sérfræðinga Landsbankans sem tekur tillit til kaupa Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour, en kaupin gengu endanlega í gegn í byrjun mánaðarins. Hagfræðideildin hækkar verðmat sitt á Fjarskiptum um 38 prósent frá síðasta verðmati í febrúarmánuði.

Er tekið fram að fullra áhrifa af samlegð Fjarskipta og 365 eigi að gæta á næstu 12 til 18 mánuðum og að EBIDTA – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði um 4.335 milljónir króna á næsta ári og 5.119 milljónir árið 2020. Er það í nokkru samræmi við áætlanir stjórnenda félagsins.

Greinendur bankans benda á að samlegðaráhrif kaupanna muni að mestu leyti koma fram í gegnum rekstrarkostnað. Þannig sé sparnaður í tæknimálum metinn á um 600 milljónir króna og auk þess muni nást fram hagræðing í starfsmannahaldi. Ljóst sé þó að töluverð hætta sé á brotthvarfi viðskiptavina í kjölfar kaupanna.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×