Innlent

Nýir leikarar fá mentor af sama kyni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þjóðleikhúsið hefur leitað til fagaðila til að vera leikhúsinu innan handar ef erfið mál koma upp.
Þjóðleikhúsið hefur leitað til fagaðila til að vera leikhúsinu innan handar ef erfið mál koma upp. vísir/gva

Þjóðleikhúsið hefur birt á heimasíðu sinni umfjöllun um aðgerðir í leikhúsinu í kjölfar #metoo byltingarinnar. Þar kemur meðal annars fram að ákveðið hafi verið að nýir leikarar, sem komi til starfa við húsið, fái leiðbeinanda af sama kyni úr hópi fastráðinna leikara við húsið.

Birtingin kemur í kjölfar aðgerða leikhúsanna og Listaháskóla Íslands sem tengja má #metoo byltingunni. Leikarar hafa verið reknir og kennarar stigið til hliðar við kennslu.

„Ákveðið hefur verið að aukaleikarar (sem oft eru ungir) fái sérstakan trúnaðarmann við húsið í hverri uppfærslu. Athygli okkar beinist ekki síst að ungum konum við störf í hinum ýmsu deildum Þjóðleikhússins og verður staða þeirra skoðuð sérstaklega. Börn sem leika í sýningum við húsið hafa ávallt sérstakan umsjónaraðila.“

Þjóðleikhúsið hefur leitað til fagaðila til að vera leikhúsinu innan handar ef erfið mál koma upp að því er segir í tilkynningunni. Sami aðili mun framkvæma könnun meðal allra starfsmanna Þjóðleikhússins þar sem kannað verður algengi og alvarleiki kynferðislegrar áreitni og annarrar valdbeitingar. Í kjölfarið á þeirri könnun verður unnin aðgerðaáætlun um úrbætur og aðgerðaáætlun hússins vegna kynferðislegrar áreitni endurskoðuð.

Tilkynningu Þjóðleikhússins má lesa í heild hér að neðan. Þar starfa rúmlega 300 manns þar af 100 í föstu starfi.

Tilkynningin
Þjóðleikhúsið starfar samkvæmt jafnfréttisáætlun og aðgerðaáætlun vegna kynferðislegrar áreitni, en einnig hefur verið gripið til sértækra aðgerða vegna þeirrar miklu umræðu sem hefur skapast í samfélaginu og kennd er við #MeToo.

Þjóðleikhúsið hefur leitað til fagaðila til að vera leikhúsinu innan handar ef erfið mál koma upp. Sami aðili mun framkvæma könnun meðal allra starfsmanna Þjóðleikhússins þar sem kannað verður algengi og alvarleiki kynferðislegrar áreitni og annarrar valdbeitingar. Í kjölfarið á þeirri könnun verður unnin aðgerðaáætlun um úrbætur og aðgerðaáætlun hússins vegna kynferðislegrar áreitni endurskoðuð.

Þjóðleikhúsið starfar samkvæmt jafnréttisáætlun sem er uppfærð reglulega og er markmið hennar að tryggja jafnrétti kynjanna, jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan leikhússins og að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Þá eru í áætluninni markmið og aðgerðir er varða innra starf Þjóðleikhússins. Yfirstjórn Þjóðleikhússins ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun leikhússins. Jafnréttisáætlun var síðast uppfærð í desember 2016. 

Þjóðleikhúsið hefur einnig starfað samkvæmt aðgerðaáætlun vegna kynferðislegrar áreitni í Þjóðleikhúsinu frá árinu 2013 og er sú áætlun öllum starfsmönnum aðgengileg á innra neti leikhússins. Þar er skilgreining á því hvað kynferðisleg áreitni er, hvernig hún getur birst og eru raktar verklagsreglur þegar grunur leikur á kynferðislegri áreitni, bæði eftir óformlegri og formlegri málsmeðferð. Ítrekuð er skylda Þjóðleikhússins að kanna mál til hlítar, og stefnt er að því að hinir ábyrgu verði látnir bera ábyrgð og þolendum sé veittur stuðningur. Stuðningur við þolendur taki mið af því hversu alvarleg kynferðislega áreitnin var. Ef starfsmaður er að ósekju ásakaður um að  hafa áreitt einhvern kynferðislega kann hann að hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð.

Innan hverrar uppfærslu er trúnaðarmaður leikara. Við húsið er einnig trúnaðarmaður annars starfsfólks. Fólk getur einnig leitað til jafnréttisfulltrúa, öryggisfulltrúa, formanns leikarafélagsins, deildarstjóra og beint til leikhússtjóra sem og trúnaðarmanna innan hvers stéttarfélags. Þetta eru ferlar sem hafa verið í gangi en gert hefur verið sérstakt átak í að kynna starfsfólki þá betur. Í kjölfarið á #MeeToo var haldinn fundur með öllu starfsfólki. Í kjölfar #tjaldiðfellur var haldinn fundur með öllum leikurum hússins og annar fundur með öðru starfsfólki. Fundir hafa verið haldnir með öllum deildarstjórum með það að markmiði að leiða fram öll áreitnimál sem kunna að hafa legið í láginni í Þjóðleikhúsinu.

Ákveðið hefur verið að nýir leikarar sem koma til starfa við húsið fái mentor/leiðbeinanda af sama kyni úr hópi eldri fastráðinna leikara við húsið. Ákveðið hefur verið að aukaleikarar (sem oft eru ungir) fái sérstakan trúnaðarmann við húsið í hverri uppfærslu. Athygli okkar beinist ekki síst að ungum konum við störf í hinum ýmsu deildum Þjóðleikhússins og verður staða þeirra skoðuð sérstaklega. Börn sem leika í sýningum við húsið hafa ávallt sérstakan umsjónaraðila.

Það er mikil samfélagsleg framför að nú ríkir samhugur um að kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi líðist ekki og um það sé talað og að það skuli afhjúpað. Þá væri það til góðs ef þessi hugarfarsbreyting myndi verða til þess að einhver sem hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi og byrgt inni geti nú leitað aðstoðar og stuðnings. Það er samfélagsleg skylda okkar að styðja þá einstaklinga og vernda og leiða mál að sanngjarnri og heillavænlegri niðurstöðu.

Markmiðið er að Þjóðleikhúsið sé góður og öruggur vinnustaður þar sem komið er fram við hvern af virðingu, sanngirni og nærgætni. Ef einhver brýtur gegn öðrum ber hinn brotlegi ábyrgð á gerðum sínum, ekki sá sem fyrir brotinu verður. Við hin berum ábyrgð á því að vernda hvert annað og að láta ekki slík brot afskiptalaus.

Í Þjóðleikhúsinu starfa rúmlega 300 einstaklingar og eru um 100 í föstu starfi. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.